Beint í efni

35. fundur LK 2019-2020

15.06.2020

Þrítugasti og fimmti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2019-2020 var haldinn miðvikudaginn 20. maí kl. 20:30 í gegnum fjarfundarbúnað. Mættir eru Arnar Árnason, formaður, Herdís Magna Gunnarsdóttir, varaformaður, Rafn Bergsson, Bessi Freyr Vésteinsson og Jónatan Magnússon. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

 1. Kvótamarkaður. Áframhaldandi umræður af síðasta stjórnarfundi. Fundur framundan í framkvæmdanefnd búvörusamninga en ekki komin dagsetning. Umræður um hámarksverð en stjórn sammála að stöðugleikinn er grundvallaratriði.
 2. Viðbótarframlag til Stóra-Ármóts. Nautís hefur óskað eftir viðbótarframlagi af búvörusamningi til þess að dreifa holdanautasæðinu líkt og í fyrra. Þá var veitt aukafjármagn að sömu upphæð og tekið af framleiðslujafnvægislið samningsins um starfsskilyrði nautgriparæktar. BÍ er tilbúið að veita þessa heimild og stjórn LK hefur samþykkt þessa ráðstöfun í gegnum síma fyrir þennan fund. Umræður um notkun fósturvísa og sæðis. Samþykkt að fá Sigurð Loftsson, formann Nautís, á næsta stjórnarfund LK til að ræða stöðuna og framtíðina.
 3. Félagskerfi bænda. Tekið fyrir minnisblað frá framkvæmdastjóra LK um stöðu LK og þær spurningar sem hafa vaknað varðandi einföldun félagskerfisins. Miklar umræður um útfærslur, feril og stöðu nautgriparæktarinnar. Framkvæmdastjóri vinnur minnisblað sem verður áframsent á stjórn BÍ í næstu viku.
 4. Umræður um endurskoðun rammasamnings. Fundur í samninganefnd bænda var haldinn 30. apríl og tillögur samninganefndar kynntar. Tillögur lagðar fyrir stjórn LK til kynningar. Umræður um áherslur LK. Tollamálin skipta þar mestu máli. Rætt um kölkun ræktunarlands.  Mikilvægt að áburður og önnur umgengni lands beri tilskilinn árangur. Mikilvægt að kornrækt geti þrifist þar sem hún á heima. Rætt um hvata til nýliðunar.
 5. Ársreikningur LK 2019. Drög að ársreikningi lögð fram til kynningar. Unnið áfram og fljótlega tekið til frekari umræðu ásamt fjárhagsáætlun.
 6. Aðalfundur LK 2019. Umræður um þá hugmynd að aðildafélög haldi aðalfundi sína á sama tíma og svo verði slegið upp sameiginlegri bændahátíð. Stjórn sammála að stefna að helginni 6.-7. nóvember. Unnið áfram.
 7. Girðinga- og kaltjón. Bjargráðasjóður bætir girðinga- og kaltjón en bændur þurfa að sækja sérstaklega um það. Viðbragðsteymi BÍ hefur rætt mikilvægi þess að kynna ferlið betur fyrir bændum, þ.e.a.s. hvernig skal sækja um og hvar er hægt að óska eftir úttekt. Upplýsingar eru komnar og voru birtar á naut.is mánudaginn 18. maí.
 8. ErfðamengisúrvalRML hefur sótt um styrk til Nýsköpunarsjóðs námsmanna til að fara í sýnatökur í sumar. Í umsókninni er gert ráð fyrir að ferðakostnaður sé greiddur af LK. Búið er að boða til fundar 27. maí nk. um framhaldið. Næstu skref eru að funda með Bændasamtökum Íslands og ræða fjármögnun á þeim verkefnum sem framundan eru vegna erfðamengisúrvalsins. Umræður um fjármögnunarleiðir.
 9. Tollvernd osta. Fluttur er inn til landsins jurtaostur án tolla. Magn þessa innflutnings var um 300 tonn á árið 2019 sem samsvarar rúmlega 3 milljónum lítra af mjólk og hefur því umtalsverð áhrif á markaðinn. Meðal vara sem fluttar er inn á þessu tollanúmeri er rifinn 82-84% Mozzarella ostur sem réttilega ætti að vera flokkaður með sama hætti og annar ostur, í tollflokk 0406 og er það í samræmi við tollflokkun þessarar vöru hjá ESB. Farið hefur verið fram á leiðréttingu og er sú beiðni í vinnslu innan stjórnsýslunnar.
 10. Starfshópar búvörusamnings. Skilabréf frá starfshópi um loftslagsmál fór til ráðherra mánudaginn 18. maí. Skilabréf lagt fram til kynningar fyrir stjórn. Einungis búið að funda einu sinni í verðlagshópnum en fundur áætlaður næstkomandi þriðjudag. Rætt um mikilvægi þess að opinber aðili ákvarði áfram lágmarksverð til bænda en það er nauðsynlegt að uppfæra verðlagsgrunninn svo ákvörðun um lágmarksverð til bænda sé í samræmi við stöðuna hverju sinni. Hópur um aðlögunarsamninga, minni bú o.fl. hefur sótt um frest á skilum til 2. júní og er vinna í eðlilegum farvegi.
 11. Uppfærsla myndabanka LK. Framkvæmdastjóri leggur til að uppfæra myndabanka fyrir nautgriparækt á Íslandi, bæði fyrir naut.is og aðra miðla. Einn dagur í myndatöku á nokkrum stöðum og fullvinnsla mynda kostar ca. 120-150 þús + VSK. Stjórn samþykkir og framkvæmdastjóri vinnur áfram.
 12. Önnur mál
  1. Bíll LK hefur verið seldur.
  2. LK fór af stað með mynda- og myndbandasamkeppni á samfélagsmiðlum í morgun og stendur hún yfir til og með 1. júní nk. en þá er hinn alþjóðlegi mjólkurdagur.
  3. Sýnileiki í fjölmiðlum. Bændur vilja sjá forsvarsmenn meira í fjölmiðlum.
  4. Nautakjötsverkefni. Skýrsla um aðstöðu í nautakjötsframleiðslu tilbúin á næstu vikum. Áframhaldandi vinna við gerð bæklings um nautakjötsframleiðslu. Í skoðun að koma á fót sérvörumerki fyrir íslenskt nautakjöt.
  5. Umræður um hugsanlegan skort og verðhækkanir á aðföngum. Tekið áfram innan viðbragðsteymis BÍ.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 22:35

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda