Beint í efni

34. fundur LK 2019-2020

28.04.2020

Þrítugasti og fjórði fundur stjórnar LK 2019-2020 var haldinn mánudaginn 20. apríl kl. 20:00 í gegnum fjarfundarbúnað.

Mætt eru Arnar Árnason formaður, Herdís Magna Gunnarsdóttir varaformaður, Jónatan Magnússon, Bessi Freyr Vésteinsson og Rafn Bergsson ásamt Margréti Gísladóttur framkvæmdarstjóra sem jafnframt ritar fundargerð.

Þetta var gert:

  1. Afgreiðsla fundargerðar. Fundargerð fundar stjórnar LK starfsárið 2019-2020 var samþykkt og verður birt á naut.is að loknum fundi.
  2. Covid-19.Framkvæmdastjóri fer yfir stöðu mála hjá viðbragðsteymi BÍ. Umræður um mál sem hafa frestast vegna ástandsins, t.d. tjónamál í óveðrinu í vetur og niðurstaða vegna forkaupsréttar nýliða á nýliðnum kvótamarkaði (sjá lið 3). Framkvæmdastjóri gerir minnisblað til Bjargráðasjóðs um viðhorf LK hvernig skynsamlegt væri að meta tjón á kúabúum og sendir á stjórn.
  3. Kvótamarkaður. Umræður um fyrsta kvótamarkað eftir endurskoðun búvörusamninga sem haldinn var 1. apríl sl.. 9 gild sölutilboð, 218 gild kauptilboð. Greiðslumark sem boðið var fram voru alls 586.046 lítrar en óskað var eftir 9.836.190 lítrum. Greiðslumark sem viðskipti náðu til voru 585.981 lítrar að andvirði 108.406.485 kr. LK sendi í kjölfarið erindi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis vegna forkaupsréttar nýliða en að mati stjórnar var hann ekki útfærður með þeim hætti sem gera mátti ráð fyrir við endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Fóru samtökin fram á að útreikningar fyrir nýliðinn markað verði leiðréttir og úthlutun keypts greiðslumarks þar með. Í ljósi þessarar mismunandi túlkunar á framkvæmd samningsins óskuðu samtökin einnig eftir fundi með ráðuneytinu til að fara yfir reglugerðina í heild sinni til að koma í veg fyrir slíkt í framtíðinni. Samtal framkvæmdastjóra við ráðuneytið er á dagskrá á morgun. Fundur framkvæmdanefndar búvörusamninga verður haldinn fljótlega. Umræður um þróun á kvótamarkaði og hámarksverð. Stjórn sammála að stöðugleiki verði að vera svo bændur viti að hverju þeir ganga. Ekki sé hægt að taka ákvörðun um fyrirkomulag fyrir hvern markað með þeirri óvissu sem því fylgir. Áfram verður lögð þung áhersla á að hámark sé á kvótaverði.
  4. Aðalfundur LK 2020. Samkomubann í gildi til 4. maí, þá leyft samkomur allt að 50 manns. Umræður um heppilega dagsetningu fundar og hvort árshátíð verði haldin samhliða. Litið til haustsins. Unnið áfram.
  5. Úthlutun úr þróunarfé nautgriparæktarinnar. Úthlutun á fundi fagráðs 15. apríl sl. Varaformaður fer yfir. LK var með tvær styrkumsóknir, önnur fékk fullan stuðning en hin að 2/3 hluta. Margar áhugaverðar umsóknir, m.a. útgáfa námsbókar um nautgriparækt, söfnun hagtalna í nautgriparækt og könnun á kálfadauða.
  6. Verðlagsnefnd. Formaður fer yfir. Reiknuð hækkunarþörf var 3,74%. Vilji var hjá nefndinni að sýna samfélagslega ábyrgð en þó ljóst að mikilvægt sé fyrir bændur og iðnaðinn að tekin verði verðákvörðun í allra nánustu framtíð. Samþykkt var við síðustu verðlagningu að geyma hluta hækkunar og tíðni verðákvarðana aukin eftir atvikum, til að koma í veg fyrir uppsöfnun á hækkunarþörf. Ákveðið að fresta ákvörðun um verðlagningu en stefnt að fundi síðari hluta maí.
  7. Skoðanakönnun meðal kúabænda. Varaformaður sendi erindi á stjórn 4. apríl um skoðanakönnun meðal kúabænda. Umræður um efnistök, m.a. framtíðarhorfur í mjólkurframleiðslu, viðhorf til kolefnisjöfnunar, framleiðsla nautgripakjöts og hlutdeild innlends fóðurs. Framkvæmdastjóra falið að skoða hvaða leiðir séu hagstæðastar og skili þeim upplýsingum sem þörf er á.
  8. ÍSEY skyr. Umræður um framtíðarhorfur á erlendum mörkuðum og hagsmuni kúabænda. Stjórn sammála að óska eftir fundi við mjólkuriðnaðinn.
  9. Sýning í gamla mjólkurbúshúsinu á Selfossi. Erindi til stjórnar. Á Selfossi stendur nú yfir uppbygging nýs miðbæjar þar sem telft er saman nýju og gömlu á spennandi hátt. Alls verða reist 35 hús, þ.á.m. gamla mjólkurbúshús MBF, sem Guðjón Samúelsson hannaði, sem verður heimili fyrir sýningu um skyr, auk mathallarstarfsemi með fjölbreyttum veitingum. Landssambandi kúabænda er boðið að taka þátt með einhverjum hætti og tekur stjórn vel í það. Umræður um aðkomu LK. Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram.
  10. Birting gagna um opinberar greiðslur til bænda.Landbúnaðarráðuneytið hefur nú svarað fyrirspurn þingmanns Viðreisnar um greiðslur til bænda 6 ár aftur í tímann, sjá:https://www.althingi.is/altext/150/s/1236.html. Upplýsingar um greiðslur sem þessar eru einnig opinberar í löndum í kringum okkur. Heildarstuðningur við nautgriparækt var 6,6 ma. kr. árið 2019, þar af 4,9 ma. kr. greiðslur út á framleiðslu mjólkur. Framleiðsla íslenskra nautgripabænda er 151 m. ltr. mjólkur og 4.800 tonn af nautgripakjöti á ári. Hámark er á hlutfalli heildargreiðslumarks sem einstaka framleiðendur geta verið með sem og 0,7% hámark á greiðslum af samningi um stuðning í nautgriparækt. Gripagreiðslur þrepast einnig niður eftir auknum fjölda gripa, þannig er stutt hlutfallslega meira við minni bú. Þá hafa orðið miklar breytingar á stuðningsforminu eins og hjá öðrum, og varð hann almennari árið 2017.
  11. Einföldun regluverks og stjórnsýslu á sviði landbúnaðar og matvæla.Landbúnaðarráðherra hefur lagt fram frumvarp um breytingu á ýmsum lögum á sviði landbúnaðar og matvæla vegna einföldunar regluverks og stjórnsýslu, sjá: https://www.althingi.is/altext/150/s/1222.html Þar er m.a. lagt til að verðlagsnefnd verði skipuð til 4 ára í stað 1 árs „í því skyni að gera störf nefndarinnar markvissari og spara tíma við umsýslu vegna tilnefninga og skipunar nefndarinnar”. Umræður um kosti og galla lengingar skipunartíma. Ekki hafa verið sendar út umsagnarbeiðnir en yfirleitt er umsagnaraðilum veittur tveggja til þriggja vikna frestur. Stjórn sammála um að heppilegra væri að skipað yrði í nefndina í upphafi hvers kjörtímabils.
  12. Önnur mál.
  • Markaðsmál í nautakjöti. Verkefnastjóri sendi stjórn minnisblað um undirbúning vörumerkis fyrir íslenskt nautakjöt og markaðsverkefni. Stjórn sammála að vinna að því.

Fleira var ekki gert og fundi lokið kl. 22.25

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda