Beint í efni

33 prósent danskra kúa úti á sumrin

04.07.2011

Undanfarin ár hafa orðið straumhvörf í danskri mjólkurframleiðslu þegar kemur að útiveru kúa. Árið 2003 voru 74% kúnna skráðar í útiveru á sumrin en nú er hlutfallið komið niður í 33 prósent. Skýringanna er fyrst og fremst að leita í stærri búum og meira framleiðsluöryggi með kýrnar inni en úti segir Peter Stamp Enemark, landsráðunautur í dýravelferð hjá Þekkingarsetri landbúnaðarins í Skejby.
 
„Það er bæði mikið mál að setja út mörg hundruð kýr í einu auk þess sem það kostar kúabúin mikið. Til viðbótar er mun auðveldara að tryggja hámjólka kúnum rétt fóður, þegar fóðruninni er stýrt inni í fjósunum. Þess vegna er það okkar mat að þessi þróun sem hefur átt sér stað á undanförnum árum sé ekki endilega slæm“, segir Peter í viðtali við blaðið Metroexpress.
 
„Nútímafjós eru í raun bara akur með þaki þar sem er gott pláss fyrir kýrnar, loftið gott og hitastigið einnig. Þess utan er þar skjól fyrir vindi og regni og mun minni hætta á smiti en utandyra, t.d. ef gangvegir kúnna eru ekki þeim mun betri. Þess vegna er ekki tryggt að það sé alltaf betra fyrir kúna að skipta fjósinu út fyrir beitarsvæðið“, segir Peter að lokum í viðtalinu.

 

Nynne Capion, dýralæknir og lögfræðingur framleiðsludýrasviði háskólans í Kaupmannahöfn, tekur í sama streng og bætir reyndar við: „Með vaxandi bústærð er bara ekki hægt að hleypa öllum kúnum út á tún. Sumar kýrnar munu þurfa ganga allt of langt og svo ná túnin varla að fullnægja fóðurþörfum hámjólka kúa. Svo þurfa auðvitað neytendur að vera tilbúnir til þess að greiða mun meira fyrir mjólkina. Hún mun ekki geta verið jafn ódýr og hún er í dag, ef allar kýr eiga að fá leyfi til þess að rölta um úti á túni“, segir Nynne í sama blaði.

 

Þess má geta að „ódýra“ mjólkin sem Nynne getur um í svari sínu er þó mun dýrari en mjólk sem seld er í lágvöruverðsverslunum hér á landi og mjólk sem er seld er í Danmörku sem „mjólk frá kúm á beit“ kostar amk. 30-40 krónum meira pr. líter út úr búð en önnur mjólk.

 

Þess má ennfremur geta að bændurnir sem setja kýrnar út fá einnig mun hærra verð fyrir mjólkina heldur en þeir sem hafa kýrnar inni. Í líklega nánast öllum tilfellum er um stór bú að ræða sem ekki setja kýrnar út, þ.e. bú með hátt á annað hundrað kýr eða fleiri/SS.