Beint í efni

33% barna vissu ekki hvaðan mjólkin kemur

06.07.2017

Stórfyrirtækið Cadbury, sem m.a. er þekkt fyrir að framleiða mjólkursúkkulaði og selja um allan heim, stóð fyrir skemmtilegri rannsókn á breskum börnum á aldrinum 4-8 ára. Þau fengu margvíslegar spurningar sem tengjast mjólk og mjólkurframleiðslu og svörin frá krökkunum voru einkar áhugaverð og hafa töluvert skemmtanagildi. Miður skemmtilegt var sú staðreynd að þriðjungur krakkanna hafði ekki hugmynd um það hvaðan drykkjarmjólkin kemur! En sé horft á það sem er heldur skemmtilegra þá svöruðu t.d. 10% því til að kýr væru á stærð við breska tveggja hæða strætóa og jafn stór hópur þessara bresku barna var hins vegar á þeirri skoðun að kýr væru á stærð við ketti!

Ótal önnur skemmtileg dæmi má nefna eins og að áttunda hvert barn hafði ekki hugmynd um að kýr baula. Tilgangur þessarar „skoðanakönnunar“ var m.a. að skapa umræðu um mjólkurframleiðslu og það hve langt frá grunnstoðum samfélaganna mörg börn alast upp við nú orðið. Ennfremur getur fólk nú tekið „Cadbury“ kýr í fóstur en þegar það er gert fá þær fjölskyldur sem það gera margvíslegar upplýsingar um kúna sína ásamt ýmsu öðru. Áhugavert og jákvætt uppátæki hjá Cadbury sem gæti tengt betur saman sveit og borg/SS.