30. fundur stjórnar LK 2019-2020
03.02.2020
Þrítugasti fundur stjórnar LK 2019-2020 var haldinn mánudaginn 20. janúar kl. 11:00 á Hótel Sögu, Hagatorgi, 107 Reykjavík.
Mætt eru Arnar Árnason formaður, Herdís Magna Gunnarsdóttir varaformaður, Rafn Bergsson og Bessi Freyr Vésteinsson, ásamt Margréti Gísladóttur framkvæmdarstjóra sem jafnframt ritar fundargerð. Jónatan Magnússon boðaði forföll og ekki var unnt að fá varamann í staðinn.
Þetta var gert:
- Afgreiðsla fundargerða. Fundargerð 29. fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2019-2020 samþykkt og undirrituð og verður birt á naut.is að loknum fundi. Aðrar áður samþykktar og birtar fundargerðir undanfarinna símafunda undirritaðar.
- Kjötmál, næstu skref. Höskuldur Sæmundsson gestur. Áfram rætt um gerð fræðslubæklings -í samstarfi við aðra aðila- fyrir bændur með það að markmiði að auka virði og gæði íslensks nautakjöts. Úr yrði tól fyrir bændur til að bæta ræktunina hjá sér og reikna út hámörkunarpunkta fyrir slátrun þar sem fóðrun, vöxtur og aldur eru með sem hagstæðustum hætti. Kostnaðaráætlun er um 1,5-2 m.kr. en kostnaðarskipting verður rædd á seinni stigum.
- Verðlækkun á kýrkjöti hjá KS og SS. Afurðarverðslækkun á kjötflokki K eða kýrkjöti um 10-11% hjá KS og SS þýðir verulega skilaverðslækkun á nautgripakjöti til bænda. Ástæður verðlækkunar skv. viðkomandi sláturleyfishöfum er annars vegar aukinn þrýstingur vegna innflutnings og hins vegar vegna hárrar birgðastöðu. Þegar rýnt er í opinberar framleiðslu- og birgðatölur nautgripakjöts sést að framleiðsla á kýrkjöti var 7,17% minni árið 2019 en árið 2018 og birgðirnar eru nærri sögulegu meðaltali þó að UN kjötið sé mögulega ívið í hærra lagi. Því virðast birgðirnar ekki liggja í innlendri framleiðslu. Innflutningur fyrstu 11 mánuði ársins 2019 var einungis 2,8% meiri en fyrir sama tímabil árið 2018, en þá hafði innflutningur dregist saman um 27,7%% frá árinu áður. Þannig er innflutningur fyrir þessi tímabil 2019 25,6% minni en árið 2017. Því er ekki að sjá að um stóraukinn innflutning sé að ræða. Innflutningur á nautgripakjöti eftir að frystiskyldan var afnumin stendur í 19,8 tonnum, þó ekkert flutt inn af ófrosnu. Umræður um heimsmarkaðsverð og verðþróun á tollkvótum. Stjórn felur framkvæmdastjóra að krefjast frekari skýringa hjá sláturleyfishöfum.
- Aðalfundur LK 2020. Skipulag fundar og árshátíðar og umræður um tillögur stjórnar fyrir fundinn.
- Fagþing nautgriparæktarinnar. Umræður um áhugaverð erindi á fagþinginu sem haldið verður föstudaginn 27. mars nk. á Hótel Sögu, samhliða aðalfundi LK líkt og áður. Framkvæmdastjóri hefur þegar tilkynnt til fagráðs áhuga á erindi um nautakjötsverkefni á vegum LK og um loftslagsmál. Önnur áhugaverð efnistök að mati stjórnar: Hagræna vægið, sæðingarverkefni í holdakúm, erindi frá mjólkuriðnaðinum um stöðu og horfur. Framkvæmdastjóra falið að taka áfram.
- Kynningaráætlun um loftslagsskýrslu. Framkvæmdastjóri kynnir drög að kynningaráætlun vegna skýrslu EFLU um kolefnislosun í íslenskri nautgriparækt. Verður gerð aðgengileg í byrjun febrúarmánaðar. Stjórn samþykkir upplegg.
- Markaður með greiðslumark mjólkur. Fundur hjá framkvæmdanefnd búvörusamninga verður haldinn 23. janúar. LK og BÍ munu senda sameiginlega tillögu til nefndarinnar um tvöfalt hámarksverð, í takt við aðalfundarályktanir LK 2019. Stjórn samþykkir.
- Samþykktir LK. Farið yfir þarfar breytingar á samþykktum LK en breytingartillögur þarf að kynna fyrir stjórnum aðildarfélaga minnst 20 dögum fyrir aðalfund. Unnið áfram.
- Önnur mál
- Málefni Nautís. Framkvæmdastjóra falið að ræða áfram við fulltrúa eigenda.
- Framkvæmdastjóri tilkynnir að búið er að framlengja húsaleigusamning f. verkefnastjóra LK til næstu 6 mánaða.
- Framkvæmdastjóri og verkefnastjóri LK funduðu með fulltrúum Arionbanka föstudaginn 17. janúar um stöðu og framtíðarhorfur greinarinnar.
- Verið er að skoða fyrirkomulag bókhaldsþjónustu LK.
- Herdís Magna tilkynnir að fundur sé hjá stjórn SAM í næstu viku þar sem hún situr. Umræður um efnahalla í mjólk og ákvörðun greiðslumarks 2020.
- Umræður um upprunamerkingar.
- Arnar Árnason tilkynnir að hann muni ekki gefa áframhaldandi kost á sér sem formaður LK frá og með aðalfundi LK 2020. Fer yfir starfsemi LK undanfarin ár og hvaða verkefni eru framundan að hans mati.
- Formaður verður erlendis 4.-15. febrúar
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 15:50
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda