Beint í efni

3. fundur stjórnar LK 2018-2019

24.05.2018

Þriðji fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn miðvikudaginn 9. maí 2018 kl.21:00. Símafundur.

Á fundinn mættu Arnar Árnason formaður, Pétur Diðriksson, Herdís Magna Gunnarsdóttir, Rafn Bergsson og Bessi Freyr Vésteinsson. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður setti fund og svo var gengið til dagskrár.

Þetta var gert:

  1. Verklagsreglur fagráðs. – Framkvæmdastjóri kynnti nýjar verklagsreglur fagráðs sem sendar voru stjórn LK til staðfestingar. Pétur Diðriksson, sem situr í fagráði fyrir hönd LK, fór yfir vinnu fagráðs við gerð reglnanna. Verklagsreglur samþykktar.
  2. Skipan í samninganefnd búvörusamninga. – Senn líður að því að skipa þurfi í samninganefnd Bændasamtaka Íslands vegna endurskoðunar búvörusamninga. Stjórn LK er sammála um mikilvægi þess að hlutföll fulltrúa mismunandi búgreina innan samninganefndar séu sem jöfnust. Nokkrar umræður sköpuðust um endurskoðunarvinnuna, þá sérstaklega í ljósi nýs tollasamnings og mikilvægi mótvægisaðgerða svo íslenskur landbúnaður sé samkeppnishæfur.
  3. Staða verkefnis um erfðamengisúrval – Sýnatökum er nú lokið og hafa öll sýni, hátt í 8.000 talsins, verið send til Danmerkur í greiningu. Markmiðið með erfðamengis­úrvalinu er að gera okkur kleift að spá fyrir um kynbótagildi gripa á grundvelli arfgerðar þeirra, fljótlega eftir að þeir koma í heiminn. Um er að ræða eina mestu byltingu í kynbótastarfi nautgriparæktarinnar frá því sæðingar komu til sögunnar en með þessari aðferð er vonast til að stytta megi ættliðabilið í nautgriparæktinni verulega og auka þannig árlegar erfðaframfarir sem því nemur. Eins og ljóst var frá upphafi er verkefnið nokkuð kostnaðarsamt og stendur heildarkostnaður nú í kr. 39.163.722,- Eru komnir styrkir og styrkloforð sem nema kr. 21.250.000,-. Framkvæmdastjóri fundaði með verkefnastjóra og framkvæmdastjóra BÍ 9. maí um framhaldið. Ljóst verður í júnímánuði hvort umsókn um stöðu íslensks doktorsnema í verkefni um erfðamengisúrval við Árósaháskóla verði samþykkt. LK ásamt BÍ og Auðhumlu hefur ábyrgst þann kostnað doktorsnema sem ekki fást styrkir fyrir. Stjórn sammála um að sækja styrki til alþjóðlegra sjóða vegna verkefnisins í heild. Formanni og framkvæmdastjóra falið að funda með forsvarsmönnum BÍ um framhaldið.
  4. Dómur EFTA-dómstólsins, niðurstaða Deloitte og norsku lögfræðistofunnar Arntzen de Besche og næstu skref. – Bændasamtök Íslands ásamt svína-, eggja-, kjúklinga-, sauðfjár- og kúabændum sömdu við Deloitte um að vinna greiningu á mögulegum áhrifum frjáls innflutnings á ferskri kjötvöru, ógerilsneyddum eggjum og mjólk á íslenskan landbúnað. Ljóst er að áhrif á nautgripakjötsframleiðslu yrðu töluverð og verða niðurstöður greiningarinnar kynntar  á næstu vikum. Einnig var samið við norsku lögfræðistofuna Arntzen de Besche um að vinna lögfræðiálit á mögulegum aðgerðum Íslands í kjölfar dómsins. Þær kröfur sem áður hafa verið settar fram af hálfu bænda eru að óskað verði eftir viðræðum við Evrópusambandið um þessa stöðu og látið verði reyna á hvort við getum haldið núgildandi löggjöf áfram í gildi með samningum þess efnis. Ef sú leið er ekki fær þá er það lágmarkskrafa að samið verði um minnst þriggja ára frest til undirbúnings þeirra áhrifa sem breytt fyrirkomulag mun hafa.
  5. Fjárfestingastuðningur búvörusamninga – Á fundi framkvæmdanefndar búvörsamninga 23. apríl sl. var farið yfir upplýsingar frá Búnaðarstofu um styrkhlutfall vegna fjárfestingastuðnings í nautgriparækt 2018 en styrkhlutfallið nemur á þessu ári 3% af stofnkostnaði. LK var falið að skoða málið og koma með tillögu til nefndarinnar hvort beita skuli heimild nefndarinnar um tilfærslu milli liða skv. grein 10.1 samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar. Á síðasta ári voru færðar aukalega 80 milljónir króna af liðnum framleiðslujafnvægi (6. gr.) yfir í fjárfestingarstuðning (8. gr.) og heildarupphæðin 273 milljónir króna. Á þessu ári eru 192 milljónir króna í fjárfestingarstuðning. Miklar umræður sköpuðust um framkvæmdir og aukna framleiðslu mjólkur ensamkvæmt spámódelum verður innvigtun árið 2018 á bilinu 155-156 milljónir lítra. Er niðurstaða stjórnar sú að ekki skuli beita heimild nefndarinnar um tilfærslu milli liða til að auka við fjármagn til fjárfestingarstuðnings að þessu sinni. Miklar framkvæmdir eru í gangi víðsvegar um land og aukning á fjármunum til fjárfestingarstuðnings hefðu þar ekki úrslitaáhrif.
  6. Önnur mál.
  • Framkvæmdastjóri gerir stjórn kunnugt að frá og með síðasta aðalfundi fara akstursgreiðslur úr 110 kr/km í 100 kr/km.
  • Stjórn heimilar framkvæmdastjóra að stofna nýjan bankareikning, fjárhæða- og tímaþrep, vegna verkefnisins um erfðamengisúrval.

Fleira var ekki gert og fundi slitið 22.20

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda