Beint í efni

3. fundur stjórnar LK 2017-2018

08.10.2017

Þriðji fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2017-2018, var haldinn á skrifstofu samtakanna að Hagatorgi 1, 107 Reykjavík, föstudaginn 9. júní kl. 10:30.

Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Pétur Diðriksson, Bessi Freyr Vésteinsson, Herdís Magna Gunnarsdóttir og Elín Heiða Valsdóttir. Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska var gestur undir lið 1, Bjarni Ragnar Brynjólfsson, skrifstofustjóri SAM var gestur undir lið 3 og Jón Baldur Lorange, framkvæmdastjóri Búnaðarstofu var gestur undir lið 5. Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri BÍ, kom inn á fund undir lið 6. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.

Þetta var gert.

1. Nautakjötsmarkaðurinn. Ágúst Torfi Hauksson, framkvæmdastjóri Norðlenska, fór yfir það hvernig staðan lítur út frá hans bæjardyrum séð. Í dag eru engir biðlistar á Norðurlandinu og sala afar góð. Það er skýr lína frá eigendum fyrirtækisins að nota innlent kjöt og því keypt hakkefni af öðrum sláturleyfishöfum á landinu ef vantar. Stjórn LK tekur undir það að slíkt viðhorf er afar mikilvægt greininni, sérstaklega á tímum sem þessum þar sem krónan er sterk og erlent hakkefni er nokkuð ódýrt í innkaupum. Verkefni sem snúa að aukinni sölu nautakjöts hafa verið í gangi frá vorinu 2016 og stefna menn að og undirbúa sig fyrir enn meiri söluaukningu í framtíðinni. Hluti af því verkefni er að vinna að uppbyggingu greinarinnar til lengri tíma.
Birgðastaða er svipuð milli ára í magni en salan eykst svo birgðirnar eru til skemmri tíma en áður. Mestur söluvöxtur hefur verið til mötuneyta og veitingahúsa fyrstu 4 mánuði ársins frá fyrra ári. Slátrun og sala er meiri en í fyrra en framlegð hefur þó farið fallandi per kíló sökum hærri launakostnaðar, hærra verðs til bænda og styrkingar krónunnar, menn ná ekki fram þarfri verðhækkun á vörunni vegna stöðunnar á markaðnum.
Þegar kemur að áskorunum í nautakjötsframleiðslu má m.a. nefna einsleitni innflutts kjöts. Stór veitingahús með mikinn afgreiðsluhraða, kjósa frekar að fá alla vöðvana eins. Stór hluti af innlendri framleiðslu eru kýr með litlar lundir og breytilegar, s.s. öðruvísi vara en sú innflutta og meiri vinna fyrir kokkana. Þetta viðhorf var staðfest í úttekt á veitingahúsarekstri sem unnin var fyrir fyrirtækið. Þó virðist minna mál að selja innlenda vöðva til veitingahúsa úti á landi þar sem afgreiðsluhraðinn er oft minni. Þar má einnig gera ráð fyrir að veitingahús einblíni á meiri tengsl við frumframleiðsluna, þ.e. gestir þeirra vilji mat úr nágrenninu.
Varðandi gæðin þá er ekki stórkostlegur munur á góðum Íslendingum og holdagripum í dag en innflutningur fósturvísa holdanautgripa er vissulega jákvætt skref í átt að meiri einsleitni og stöðugleika vörunnar. Þá telur Ágúst mikilvægt að setja ekki íslensku gripina og holdagripina í sama bás þegar kemur að markaðsstarfi heldur leyfa hvoru um sig að hafa sína sérstöðu.
Þau verkefni sem eru hvað brýnust þegar kemur að nautgripakjösframleiðslu eru m.a.:
– Að passa uppá tollverndina sem er greininni hvað langmikilvægust í dag ásamt því forskoti að vera með ferska vöru og því mikilvægt að ekki sé opnað á innflutning fersks kjöts.
– Breytileikann í íslensku gripunum má m.a. rekja til skorts á ráðgjöf og er stjórn LK sammála um að afar brýnt sé að sérstakur aðili sjái um þá ráðgjöf. Þekkingin og upplýsingarnar eru til staðar en það þarf að safna þessu saman og miðla á réttan hátt.
– Rætt var um hvata til slátrunar á vissum árstímum svo að bændur slátri meira þegar eftirspurnin er meiri. Möguleikar sláturleyfishafa til að haga verðskrá þannig að yfir mestu eftirspurnartímana sé greitt meira voru ræddir.

Að mati stjórnar LK vantar uppá samtalið milli bænda og markaðarins en þar er sláturleyfishafinn milliliður. Bændur þurfa uplýsingar um hvað markaðurinn er að kalla eftir. Rætt var um að skoða að ráðast í samvinnuverkefni um hvernig íslenskur nautgripur nýtist í vinnslu.

2. Skipan í vinnuhóp um stefnumörkun í kjötframleiðslu. Framkvæmdastjóri bar upp tillögu að vinnuskipulagi og skipan í hópinn samkv. umræðum á síðasta stjórnarfundi. Mikið rætt um væntingar til vinnunnar og nauðsyn verkefnisins. Gert er ráð fyrir að hópurinn hefji störf snemma í haust og vilja stjórnarmenn bíða með að ganga frá skipan um sinn. Unnið áfram innan stjórnar. Framkvæmdastjóra falið að hafa samband við ákveðna aðila sem stjórn telur mikilvægt að komi að vinnunni.

3. Mjólkurframleiðsla, staða og horfur. Bjarni Ragnar Brynjólfsson, skrifstofustjóri SAM, fór yfir. Vikuinnvigtun mjólkur er komin á sama stað og á sama tíma í fyrra. Það stefnir allt í ágætis jafnvægi í ár, haldi framleiðslan áfram sem horfir endar hún líklega í um 148 milljón lítrum. Sala sl. 12 mánuði hefur verið 129,8 milljón lítrar á próteingrunni og 140,9 milljón lítrar á fitugrunni. Gert er ráð fyrir áframhaldandi söluaukningu þó hún vissulega geti ekki verið 4-5% á ári mörg ár í röð.
Enn eru áhyggjur af áhrifum sem fækkun sæðinga og förgun kúa mun hafa næstu ár. Umræður voru um ástæður, ekkert sem hægt er að festa hönd. Komið er nýtt tæki til frystingar á sæði sem veldur því að það frystist betur og menn hafa á tilfinningu að minna sé um endursæðingar, þ.e. kýrnar halda betur. Miðað við færri sæðingar og meiri förgun ætti mjólkurframleiðsla að falla meira niður en þetta virðist ekki haldast í hendur. Í maí 2017 eru kvígukálfar 11.638 sem er um 400 fleiri en fyrir ári síðan. Kvígufjöldi í landinu er því ágætur en burðir töluvert mikið færri en í fyrra. Þá ættu burðir að fara upp á næsta ári. Nokkrar umræður sköpuðust um spámódel fyrir framleiðsluna.

4. Skipan í vinnuhóp um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu. Framkvæmdastjóri bar upp tillögu að vinnuskipulagi og skipan í hópinn samkv. umræðum á síðasta stjórnarfundi. Mikið rætt um væntingar til vinnunnar og mikilvægi þess að stefnumörkun liggi fyrir fyrir atkvæðagreiðsluna um framtíð greiðslumarks árið 2019. Gert er ráð fyrir að hópurinn hefji störf snemma í haust og vilja stjórnarmenn bíða með að ganga frá skipan um sinn. Unnið áfram innan stjórnar.

5. Fjárfestingastuðningur búvörusamninga. Jón Baldur Lorange, framkvæmdastjóri Búnaðarstofu, fór yfir framkvæmd og útreikning stuðningsgreiðslna. 177 umsóknir bárust fyrir framkvæmdir uppá um 7 milljarða króna. Af þeim voru 125 umsóknir um endurbætur og 52 um nýframkvæmdir. Alls var til úthlutunar 274.968.606 krónur, þ.e. tæpar 195 milljón krónur í fjárlögum auk viðbótarframlags uppá 80 milljón krónur af framleiðslujafnvægislið búvörusamninga sem framkvæmdanefnd búvörusamninga samþykkti að veita í fjárfestingastuðning – í samræmi við tillögu LK. Meðalstyrkupphæð var 3,3 milljón krónur. Hægt er að sækja um í þrjú ár fyrir sömu framkvæmd og hámarksstyrkupphæð er 10% af heildarpotti hvers árs fyrir sig.
Spurt var um aðferðafræði við útreikninga. Byrjað var að reikna allar umsóknir, kerfið tekur svo þakið og færir niður. Stjórnarmenn LK setja spurningarmerki við það hvenær þakið sé reiknað og telja eðlilegt að það sé gert eftirá en ekki fyrirfram líkt og gert var nú. Óskar stjórn LK eftir mismunandi dæmum um útreikning til að sjá áhrif mismunandi reiknireglna. Umræður um tilhögun fjárfestingarstuðnings búvörusamninga þar sem framkvæmdaþörf er mikil núna þegar aðbúnaðarreglugerð hefur tekið gildi.
Einnig rætt um greiðslur sláturálags. Upphæðinni deilt í ársfjórðunga og á sláturgripi sem uppfylla skilyrðin. Álagið var greitt í lok maí en verður greitt í byrjun mánaðar í framtíðinni. 254 bændur áttu rétt á greiðslum fyrir 870 gripi. 204 fengu greitt 31.5.2017 en 50 fóru í bið þar sem skilyrði búvörusamninga voru ekki uppfyllt. Ef þeir sem fóru í bið verða ekki búnir að leiðrétta við ársuppgjör í febrúar þá deilist sú upphæð sem útaf stendur niður á hina. 23 fengu greitt fyrir 10 gripi eða fleiri, greitt var á 870 skrokka og var verð per skrokk 17.023 krónur.
Opnað var fyrir umsóknir um nýliðunarstuðning í dag (9. júní) og hægt að sækja um til 30. júní. Jón Baldur kynnti vinnureglur MAST um forgangsröðum sem eru komnar á torgið og inná umsóknarsvæðið.

6. Reglugerð um fjárfestingastuðning. Búnaðarstofa hefur óskað eftir fundi með LK varðandi túlkun og breytingar á reglugerð um fjárfestingastuðning. Miklar umræður um reiknireglu sem notast var við. Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri BÍ, kom og ræddi skilning BÍ á reglugerðinni. Fundað verður um málið miðvikudaginn 14. júní. Stjórn felur framkvæmdastjóra og formanni að sitja fundinn.

7. Verklagsreglur vegna greiðslna dagpeninga. Framkvæmdastjóri kynnir drög að verklagsreglum byggðum á taxta ferðakostnaðarnefndar ríkisins. Stjórn samþykkir.

8. Hagrænt vægi í nautgriparækt. Stjórn BÍ samþykkti á fundi sínum 6. júní að Nautastöð BÍ legði fram 2,5 m. kr. framlag til framgangs verkefnisins „Hagrænt vægi eiginleika í nautgriparækt“. Fagráð hafði þá áður styrkt verkefnið um 2 milljón krónur. Stjórn samþykkir að veita 2 milljón krónur í verkefnið og er það í samræmi við áætlaða aðkomu LK í fyrri styrkumsókn um verkefnið sem lögð var fyrir Fagráð árið 2016.

9. Ályktun frá félagi eyfirskra kúabænda. „Stjórnarfundur FEK haldinn á Búgarði 4. maí 2017 vill að LK taki afstöðu í máli sem varðar útborgun gripagreiðslna vegna þeirra kúa sem hafa verið seldar milli bújarða. Þessum kúm fylgja ekki upplýsingar um mjólkurmagn og hætta því að teljast mjólkurkýr í Huppunni þó raunin sé önnur. Gripagreiðslur berast því ekki til nýs eiganda.”
Það sem breyttist um áramót með nýjum búvörusamningi er að nú er horft til þess að kýr verður að vera með skráðan burð a.m.k. annað hvert ár. Gripagreiðslur byggjast á upplýsingum í Huppu og því mikilvægt að burðarsaga fylgi með þegar um eigendaskipti er að ræða.
Ályktun LK: Stjórn Landssambands kúabænda beinir því til Bændasamtaka Íslands að upplýsingar um burðarsögu og aðrar nauðsynlegar upplýsingar fylgi með þegar sala á gripum gengur í gegn. Að öðrum kosti fá nýir eigendur ekki greiddar gripagreiðslur.

10. Starfssamningur staðgengils framkvæmdastjóra. Stjórn felur formanni að ganga til samninga við Axel Kárason í tímabundna stöðu framkvæmdastjóra.

11. Fjármögnun LK. Framkvæmdastjóri fer yfir stöðu félagsskráninga og innheimtu félagsgjalda. Framkvæmdastjóra falið að senda uppfærð félagatöl á stjórnarmenn.

12. Merking holdanautakálfa. Fundur með MAST miðvikudaginn 14. júní þar sem málið verður tekið fyrir.

13. Önnur mál
a) Stjórn LK hefur orðið áskynja um kalkskort hjá dýralæknum. Lyfjalaust á landinu, menn fengu ekki kalk í kýrnar.
Ályktun: Stjórn LK harmar þá stöðu sem komin er upp hjá dýralæknum víða um land þar sem skortur er á kalki fyrir kýr. Samtökin leggja ríka áherslu á að velferð dýra sé höfð að leiðarljósi og beinir því til Lyfjastofnunar að gæta þess að lyfjastaða í landinu sé í samræmi við þarfir hverju sinni.
b) Samfélagsmiðlaherferð. Framkvæmdastjóri fer yfir stöðuna. Von var um að verkefnið gæti farið af stað í júníbyrjun en það gekk ekki eftir. Líti svo út að verkefnið komist ekki af stað á næstu dögum er skynsamlegra að bíða fram á haust.
c) Rætt um kosti og galla vefsíðu samtakanna eftir breytingar og hvað þarf að koma til svo hægt sé að bæta síðuna. Framkvæmdastjóri vinnur áfram.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 17.30
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda