25.000 frönsk kúabú í hættu
13.07.2016
Lágt afurðastöðvaverð í Evrópusambandinu hefur þegar sett mark sitt á þýska mjólkurframleiðslu eins og við höfum greint frá og nú berast fregnir af því að staðan í Frakklandi er alls ekki betri. Svartsýnustu spárnar gera þannig ráð fyrir því að allt að 25 þúsund kúabú séu í verulegum vandræðum og að á aðeins fjórum árum muni þarlendum búum fækka úr 65 þúsund í 40 þúsund.
Talið er að það séu amk. 5 þúsund kúabú sem eru rekin með stórfelldu tapi og að tapið nemi 12-13 krónum á hvert framleitt kíló mjólkur. Til viðbótar vantar annað eins svo búin hafi fyrir launum eigenda og afskriftum og því liggur fyrir að búin þola ástandið ekki mikið lengur. Eigi að koma í veg fyrir að þessi stóri hópur kúabúa fari ekki í gjaldþrot vonast þarlendir bændur eftir viðbótar stuðningi yfirvalda eða verulega hækkuðu afurðastöðaverði, en á því eru taldar litlar líkur eins og staðan er í dag. Talið er að afurðastöðvaverðið þurfi að hækka um nærri 50% frá því sem nú er og fara í 40 evrusent eða um 54 krónur svo reksturinn geti borið sig/SS.