2,4 milljónir nautgripa flutt til vegna flóða
14.04.2011
Það kemur víst fáum á óvart að veðrabreytingar hafa orðið á jörðinni undanfarin ár með miklum öfgum í veðurfari. Þurrkar hafa hrjáð sum svæði á meðan önnur lenda í endurteknum flóðum. Brasilía er ekki frábrugðin hvað þetta snertir og hafa kúabændur þar upplifað þessa öfga í veðrinu, enda landið það fimmta stærsta í heimi með sína 8,5 milljónir ferkílómetra (83-falt stærra en Ísland). Svæðið Pantanal, við suðurhluta landamæranna að Bólivíu, hefur lent í endurteknum flóðum undanfarið en svæðið er eitt stærsta votlendissvæði í heimi og er stærð þess metin á bilinu 140-195 þúsund ferkílómetrar.
Svæðið fóstrar mikið af þeim nautgripum sem eru í kjötframleiðslu í Brasilíu og hafa bændur nú þurft að flytja 70% allra gripa af svæðinu vegna flóðanna. Eins og gefur að skilja er þetta mikið og erfitt verk, bæði vegna landsstærðarinnar og lélegra samgangna. Mörg þúsund hjarðir hafa verið reknar dögum saman út af svæðinu með tilheyrandi afföllum í lífþunga og jafnvel dauða gripa.
Tjónið vegna flóðann er metið í kringum 13-14 milljarðar íslenskra króna og er talið að matið eigi eftir að hækka enn frekar þar sem ekki hefur verið metinn kostnaður við flutningana sjálfa og áhrif þessara miklu flutninga hafa hreinlega á nautakjötsframleiðsluna í Brasilíu.
Áhrif flóðanna eru þegar komin fram í minna framboði nautakjöts í Brasilíu og þar með minni útflutnings á nautakjöti. Brasilía hefur verið stærsti útflytjandi á nautakjöti undanfarin ár og koma þar á eftir Argentína og Ástralía. Öll þessi lönd hafa lent í veðrahremmingum og er talið líklegt að raunveruleg áhrif á útflutning muni fyrst koma fram á næsta ári og árunum þar á eftir, enda eru afföll á kálfum algengust í svona flóðum og mun því alvarleg vöntun á gripum til slátrunar verða eftir eitt til tvö ár. Líklegt verður að telja að þessi tíðindi muni í það minnsta ekki lækka heimsmarkaðsverð á nautgripaafurðum. /SS