Beint í efni

24. fundur stjórnar LK 2016-2017

28.03.2017

Tuttugasti og fjórði fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2016-2017, var haldinn þriðjudaginn 14. mars kl. 12:30. 

Símafundur.

Mætt eru Arnar Árnason formaður, Pétur Diðriksson varaformaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Samúel Unnsteinn Eyjólfsson og Davíð Logi Jónsson, sem varamaður fyrir Elínu Heiðu Valsdóttur. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.

Þetta var gert:

  1. Undirbúningur aðalfundar. Ákveðið var að ræða við Inga Björn Árnason, Marbæli, og Borghildi Kristinsdóttur, Skarði, sem fundarstjóra aðalfundar og Runólf Sigursveinsson sem fundarritara. Snorri Sigurðsson verður skrifstofustjóri fundarins líkt og fyrri ár. Landbúnaðarráðherra verður ekki á landinu á þeim tíma sem aðalfundur er haldinn og því ákveðið að hafa samband við umhverfisráðherra sem sérstakan gest fundarins. Það samræmist vel við ályktanir sem lagðar verða fyrir fundinn sem og þær áherslur sem hafa birst í endurskipan samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga. Framkvæmdastjóra falið að gera tillögu að uppröðun í starfsnefndir með það fyrir augum að í hverri og einni sitji sem breiðastur hópur bænda, með tilliti til búsetu, aldurs, kyns og reynslu. Samúel kom með uppástungu að tveimur tillögum frá stjórn til viðbótar, þ.e. tillaga að afkomuvöktun í nautgriparækt annars vegar og skilgreiningu á nýliða í búvörusamningum hins vegar. Stjórn LK er sammála um að mikilvægi þess að koma á reglulegri afkomuvöktun í nautakjötsframleiðslu sem og að breyta skilgreiningu á nýliða í reglugerð um stuðning í nautgriparækt þegar kemur að innlausnarmarkaði, þannig að nýliði sé sá sem hafið hefur búskap á síðastliðnum 5 árum. Að öðrum kosti er hópur bænda, sem réttilega eru nýir í búgreininni, ekki hluti af þeim nýliðum sem hafa forgang að kaupum 25% þess greiðslumarks sem hefur verið innleyst. Stjórn samþykkti tillögurnar.

Framkvæmdastjóri fór yfir drög að fjárhagsáætlun ársins 2017. Tap verður á árinu og má gera ráð fyrir að það nemi um 16,3 milljónum árið 2017. Kostnaður við laun og skrifstofu er áætlaður 30 milljónir á árinu og þá er tekið inní hækkun launavísitölu uppá 8,83% en laun formanns og stjórnar hafa fylgt henni. Ljóst er að endurskoða þarf alla kostnaðarliði með það fyrir augum að hagræða sem mest í rekstri. Annar rekstrarkostnaður nemur um 23 milljónum króna og samanlögð gjöld því 53 milljónum króna. Áætlaðað tekjur á árinu nema samtals 36,7 milljónum króna. Inn í þeirri tölu eru vaxtatekjur af þeim fjármunum sem LK fékk við uppgjör framleiðsluráðssjóðs. Samúel telur hallann á fjárhagsáætlun of mikinn og leggur áherslu á aðhald í rekstri.

Framkvæmdastjóra er falið að kalla á eftir tilnefningum frá formönnum aðildarfélaga fyrir fyrirmyndarbú LK árið 2017. Í kjölfarið verða tilnefningar bornar undir Jarle Reiersen, dýralækni hjá MS, og Guðmund Jóhannesson, ábyrgðarmann í nautgriparækt hjá RML.

Gögn til aðalfundarfulltrúa þurfa að birtast minnst 10 dögum fyrir aðalfund og verður læst svæði aðalfundarfulltrúa því aðgengilegt þegar öll gögn verða tilbúin í kjölfar símafundar.

  1. Frumvarpsdrög landbúnaðarráðherra um endurskoðun á samkeppnisstöðu. Framkvæmdastjóri mun funda með lögfræðingi BÍ miðvikudaginn 15. mars vegna málsins. Stjórn er sammála um að þau þrjú atriði sem eru hvað gagnrýniverðust séu afnám verðtilfærsluheimildar, afurðastöðvum verði ekki lengur heimilt að sameinast eða gera með sér samkomulag um verkaskiptingu eða annars konar samstarf og að málið hafi ekki farið í þann farveg sem til stóð, þ.e. í gegnum samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Framkvæmdastjóra er falið að vinna drög að umsögn.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16:00

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda