22. fundur stjórnar LK 2016-2017
13.03.2017
Tuttugasti og annar fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2016-2017, var haldinn miðvikudaginn 1. mars kl. 10:00 í Bændahöllinni, Hagatorgi 1, 107 Reykjavík.
Mætt eru Arnar Árnason formaður, Pétur Diðriksson varaformaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Samúel Unnsteinn Eyjólfsson og Davíð Logi Jónsson mætir sem varamaður fyrir Elínu Heiðu Valsdóttur. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.
Þetta var gert:
- Afgreiðsla fundargerða. Skrifað undir fundargerðir 19. og 20. fundar, áður samþykktar í gegnum tölvupóst og komnar til birtingar á naut.is. Fundargerð 21. fundar stjórnar afgreidd og verður birt á naut.is að fundi loknum.
- Breytingar á samþykktum LK lagðar fyrir aðalfund. Framkvæmdastjóri fór yfir fullunnar tillögur að samþykktarbreytingum, tilkomnar vegna breytinga á félagsaðild, sem lagðar voru fram á síðasta stjórnarfundi. Stjórn samþykkti tillögurnar og verða þær sendar á formenn stjórna aðildarfélaga LK í kjölfarið, í samræmi við 11. gr. samþykkta LK.
- Stjórnartillögur á aðalfund LK. Tillögur sem lagðar voru fram á síðasta stjórnarfundi unnar áfram. Helstu mál á aðalfundi eru samþykktarbreytingar og grunnur lagður að stefnumörkun í nautakjötsframleiðslu annars vegar og mjólkurframleiðslu hins vegar. Við bætist tillaga um sölu, leigu og ábúð á ríkisjörðum, kolefnisspor nautgriparæktarinnar og afkomuvöktun í nautakjötsframleiðslu.
- Ársreikningur LK árið 2016 og fjárhagsáætlun 2017. Farið ítarlega yfir drög að ársreikningi LK 2016. Miklar umræður um rekstur og hvar væri hægt að hagræða betur. Launaliður nokkuð hár á árinu sökum framkvæmdastjóraskipta. Vaxtatekjur ársins eru nokkuð hærri en áður og er það m.a. tilkomið vegna uppgjörs framleiðsluráðssjóðs. Árið 2016 var einnig afmælisár samtakanna og því ákveðnir útgjaldaliðir hærri en hefur verið. Rekstrarkostnaður samtakanna verður óhjákvæmilega hærri en tekjur ársins 2017 og má rekja það til breytinga á félagskerfinu. Umræður um hvort ætti að sameina efnistök haustfunda LK með aðalfundum aðildarfélaga, slíkt myndi spara samtökunum töluverðar fjárhæðir. Ákveðið að taka fyrir á aðalfundi LK. Framkvæmdastjóra falið að yfirfara og endurmeta bæði tryggingar og bankaviðskipti með tilliti til bestu kjara.
- Umsögn LK við reglugerð um gæðamat, flokkun og merkingu sláturafurða (EUROP reglugerðin). Stjórn telur mikilvægt að skýrt komi fram í bráðabrigðaákvæði að nautgripaskrokkar sem framleiddir voru frá og með 1. janúar 2017 og til gildistökudags EUROP matsins njóti sláturálags samkvæmt búvörusamningum falli kjötið í gæðaflokkana UNI Úrval og UNI fituflokka A, B og C.
- Tilnefning á aðal- og varamanni í stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) og samstarfsyfirlýsing BÍ og SAM. Með nýjum búvörusamningum datt löggilt samstarf BÍ og SAM niður og kallaði það á nýja samstarfsyfirlýsingu milli aðilanna. Samúel er fulltrúi LK í samráðsnefnd SAM og BÍ og kynnti nýja samstarfsyfirlýsingu fyrir stjórn. Aðalfundur SAM er haldinn 9. mars og hefur verið óskað eftir tilnefningum um stjórnarmann og varamann hans til eins árs. Stjórn LK gerir það að tillögu sinni að Jóhann Nikulásson sitji áfram sem aðalmaður LK og Pétur Diðriksson verði varamaður.
- Erindi frá Þingeyingum varðandi sameiningu félaga. Upp hefur komið sú hugmynd að sameina búgreinafélög og búnaðarsambandið á svæðinu með þeim hætti að búgreinafélögin yrðu deildir innan sambandsins og hefðu hver sinn mann í stjórn búnaðarsambandsins. Í dag er ekki boðið uppá þessa leið samkvæmt samþykktum LK. Erindið var lagt fram til kynningar og framkvæmdastjóra er falið að skoða nánar.
- Önnur mál
- Kynning verður á breytingum á Nautastöð Íslands á fagþingi nautgriparæktarinnar sem haldið er samhliða aðalfundi. Kjósa þarf í stjórn Nautís á aðalfundi LK.
- Skoðanakönnun á viðmóti mjólkurframleiðenda til greiðslumarkskerfisins fyrir aðalfund LK. Könnunin yrði gerð í gegnum tölvupóst og færi af stað í kringum 10. mars. Mikilvægt að slík gögn séu til staðar í umræðum um stefnumörkun í mjólkurframleiðslu. Framkvæmdastjóra falið að undirbúa slíka skoðanakönnun í samstarfi við Intellecta.
- Fæðingarorlof framkvæmdastjóra. Gert ráð fyrir að orlof hefjist 1. júlí 2017, með eðlilegum fyrirvara. Bæði kemur til greina að ráða einstakling til afleysingar eða formaður verði staðgengill framkvæmdastjóra um tíma.
- Samúel mun ekki gefa kost á sér í stjórn LK að nýju. Pétur og Bessi munu áfram gefa kost á sér til stjórnarsetu og Davíð hefur hug á að gefa áfram kost á sér sem varamaður. Arnar gefur áfram kost á sér til formanns. Stjórn sammála um mikilvægi þess að stjórnin hafi breiða skírskotun.
- Frestun á skilum fylgigagna með umsóknum um framkvæmdastyrk. Framkvæmdastjóra falið að heyra í MAST hvort slíkur möguleiki sé fyrir hendi ef gögn eru ekki tilbúin fyrir tilsettan tíma.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 17:00.
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda