Beint í efni

21. fundur stjórnar LK 2018-2019

03.04.2019

Tuttugasti og fyrsti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn fimmtudaginn 21. mars kl. 20:45 í Bændahöllinni að Hagatorgi, 107 Reykjavík.

Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Pétur Diðriksson, Herdís Magna Gunnarsdóttir og Rafn Bergsson. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.

Þetta var gert.

Afgreiðsla fundargerða.Fundargerðir 17.-20. fundar stjórnar LK starfsárið 2018-2019 samþykktar og verða birtar á vef samtakanna að fundi loknum.

Fyrirmyndarbú LK 2019. Stjórn fer yfir gögn frá Jarle Reiersen, mjólkureftirlitsmanni hjá Auðhumlu, og Guðmundi Jóhannessyni, ábyrgðamanni í nautgriparækt hjá RML. Voru nokkur afar sterk bú sem komu til greina og ljóst að kúabændur standa sig almennt vel. Stjórn er sammála um að Syðri-Bægisá í Hörgársveit hljóti titilinn Fyrirmyndarbú Landssambands kúabænda árið 2019. Er búið til fyrirmyndar á öllum sviðum og er m.a. fyrsta búið sem skorar 10 í einkunn í fyrirmyndarbúi Auðhumlu. Hafa ábúendur einnig náð miklum árangri í almennri bústjórn og ásýnd býlisins með besta móti.

Ársreikningur. Framkvæmdastjóri fer yfir ársreikning. Tekjur samtakanna árið 2018 voru 63.607.552 krónur, þar af voru tekjur vegna félagsgjalda 35.877.503 krónur. Gjöld félagsins voru 71.108.398 krónur, þar af 27.770.248 krónur í laun og starfskostnað stjórnar og skrifstofu. Velta samtakanna er nokkuð hærri árið 2018 en gengur og gerist sökum erfðamengisúrvalsverkefnis. Tap ársins af reglulegri starfsemi er 4.168.154 krónur. Má telja það nokkuð góðan árangur þar sem fjárhagsáætlun ársins 2018, sem samþykkt var á aðalfundi LK 2018, gerði ráð fyrir hallarekstri að upphæð 11.450.000 krónur. Eignir samtakanna eru 147.300.571 krónur. Stjórn samþykkir og verður ársreikningur lagður fyrir aðalfund.

Fjárhagsáætlun 2019. Framkvæmdastjóri fer yfir drög að fjárhagsáætlun ársins 2019. Gert er ráð fyrir tekjum að upphæð 40,2 milljónir, þar af 35,2 milljónir í formi félagsgjalda m.v. óbreytt félagsgjöld. Nokkuð rætt um upphæð og form félagsgjalda en tillaga tengd félagsgjöldum verður tekin fyrir á aðalfundi. Gert er ráð fyrir gjöldum að upphæð 47.280.000 krónur, þar af 29 m.kr. í stjórn og skrifstofu m.v. óbreytt laun stjórnar. Umræður um rekstur heimasíðu samtakanna, naut.is. Mikilvægt að útbúa stefnu fyrir síðuna. Stjórn samþykkir og verður fjárhagsáætlun lögð fyrir aðalfund.

Launamál stjórnar. Stjórn samþykkir að leggja til óbreytt laun stjórnarmanna milli ára, þrátt fyrir hækkun launavísitölu, með það að markmiði að halda kostnaði samtakanna lægri en ella. Verður tillagan lögð fyrir aðalfund.

Ráðning afleysingarmanneskju fyrir framkvæmdastjóra. Formanni er falið að ganga til samninga við Jóhönnu Maríu Sigmundsdóttur til afleysingar fyrir framkvæmdastjóra á meðan fæðingarorlofi stendur.

Kjörbréfa- og uppstillinganefnd. Formaður gerir tillögu að Ingvari Björnssyni, Elínu Margréti Stefánsdóttur og Magnúsi Erni Sigurjónssyni í kjörbréfa- og uppstillinganefnd aðalfundar LK 2019. Stjórn samþykkir.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 23.05

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda