21. fundur stjórnar LK 2016-2017
03.03.2017
Tuttugasti og fyrsti fundur stjórnar Landssambands kúabænda, starfsárið 2016-2017, var haldinn þriðjudaginn 14. febrúar 2017 kl. 15:00.
Símafundur.
Mætt eru Arnar Árnason formaður, Pétur Diðriksson varaformaður, Elín Heiða Valsdóttir ritari, Bessi Vésteinsson og Samúel Unnsteinn Eyjólfsson. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður býður fundarmenn velkomna og svo er gengið til dagskrár.
Þetta var gert.
- Afgreiðsla síðustu fundagerða. Fundagerðir 19. og 20. fundar stjórnar LK starfsárið 2016-2017 voru afgreiddar og verða birtar á naut.is í framhaldinu.
- Samþykktarbreytingar lagðar fyrir aðalfund. Breytingar á félagsaðild kallar á frekari samþykktarbreytingar. Skýra þarf meðal annars gildistíma úrsagnar úr félaginu, viðmiðun þegar kemur að fulltrúafjölda á aðalfund LK og kjörgengi. Framkvæmdastjóra falið að fullvinna tillögur að samþykktarbreytingum fyrir næsta stjórnarfund.
- Stjórnartillögur á aðalfund LK. Helstu mál á aðalfundi eru samþykktarbreytingar sbr. lið 2 hér að ofan og grunnur lagður að stefnumörkun í nautakjötsframleiðslu annars vegar og mjólkurframleiðslu hins vegar. Að mati stjórnar er einnig nauðsynlegt að gætt sé jafnræðis milli innlendra og innfluttra landbúnaðarvara ásamt því að styrkja verulega regluverk um upprunamerkingar matvæla og gerðar verði kröfur um nánari innihaldslýsingar á matvælum.
- Staða undirbúnings aðalfundar og skráningar félagsmanna. 3 aðildarfélög hafa skilað inn skráningarblöðum til LK, til viðbótar við skráningar á haustfundum, og hafa 245 framleiðendur nú skráð sig í félagið. Eiga þá 10 aðildarfélög eftir að skila inn skráningum. Framkvæmdastjóri fór yfir undirbúning aðalfundar og árshátíðar LK sem haldinn verður 24.-25. mars nk. á Akureyri. Árshátíðarnefnd hefur verið skipuð og í henni eiga sæti: Hermann Ingi Gunnarsson, Aðalsteinn Hallgrímsson, Vaka Sigurðardóttir og Þorbjörg Helga Konráðsdóttir. Framkvæmdastjóri LK á fund með Guðmundi úr fagráði 15. febrúar til að ræða undirbúning fagþings samhliða aðalfundi. Stjórn felur framkvæmdastjóra að sundurliða launakostnað stjórnar niður á akstur, dagpeninga og mánaðarlaun fyrir næsta stjórnarfund, þegar drög að ársreikningi eru lögð fram og fjárhagsáætlun unnin. Mikilvægt er að líta til allra þátta með hagræðingu í rekstri fyrir augum.
- Starf samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga. Fyrsti fundur samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga verður haldinn 16. febrúar nk. Vinnu hópsins skal lokið eigi síðar en í árslok 2018 og skal hópurinn skila greinargerð eða skýrslu til ráðherra. Stjórn telur afar mikilvægt að vinna með þá 9 tölusettu liði sem fram komu í meirihlutaáliti atvinnuveganefndar um starf samráðshópsins og leggja þar sérstaka áherslu á neytendamál, sérstöðu íslensks landbúnaðar og afkomuvöktun bænda. Elín Heiða er aðalfulltrúi í samráðshópnum og mun Margrét taka sæti hennar í hópnum sem varamaður á meðan Elín er í fæðingarorlofi.
- Til umsagnar, reglugerð um velferð dýra við flutning. Búgreinafélög munu skila umsögnum samhliða umsögn BÍ varðandi málið og hefur frestur fengist til 1. mars nk. Stjórn felur framkvæmdastjóra að vinna málið áfram.
- Önnur mál
- Næsti fundur stjórnar – Áætlaður 1. mars nk. á skrifstofu samtakanna að Hagatorgi 1, 107 Reykjavík.
Fleira var ekki gert og fundi slitið 18:45
Margrét Gísladóttir, frramkvæmdastjóri Landssambands kúabænda