Beint í efni

2009: hörmungarár hjá dönskum kúabændum

04.02.2010

Þessa dagana eru að birtast fyrstu uppgjör á rekstri danskra kúabúa fyrir árið 2009. Niðurstaðan er verri en sést hefur í ára raðir: tap af rekstrinum eru tæpar 1,6 milljónir dkk, sem eru tæp 42% af veltu. Þetta byggir á tölum úr rekstri 55 kúabúa á starfssvæðum LRØ, LandboNord og LandboSyd, sem öll eru á Jótlandi. Meginorsökin fyrir þessari rekstrarniðurstöðu er lágt mjólkurverð til framleiðenda, að jafnaði var það 2,12 dkk pr. kg mjólkur (ca. 52 kr/ltr) á síðastliðnu ári. Að mati ráðgjafa framangreindra búnaðarsambanda, gefur það verð ekki möguleika á að framleiðslan skili arði. Framlegð á kg mjólkur fór úr 1,60 dkk árið 2008 niður í 0,50 dkk árið 2009.

Lækkandi eignaverð hefur einnig sín áhrif, verðfall á bústofni og jarðnæði hefur neikvæð áhrif á niðustöðuna sem nemur tæpum 650.000 dkk pr. bú.

 

Framleiðendur brugðust við með því að auka hlutdeild heimaaflaðs fóðurs á kostnað þess aðkeypta. Sparnaður á sviði fóðrunar er um 100.000 kr pr bú, og telst vera það eina jákvæða sem hægt er að koma auga á í þessu uppgjöri. Fastur kostnaður jókst um 3% og launaútgjöld um 6%.

 

Fjárfestingar voru að jafnaði 1,5 milljónir dkk sem er nánast hrun frá árinu á undan, þegar þær voru 3,5 milljónir að jafnaði. Þess er sérstaklega getið að þessi mikli samdráttur í fjárfestingum hafi haft mikil og neikvæð áhrif á atvinnulíf á þeim svæðum sem hér um ræðir.

 

Spáin fyrir árið 2010 lítur mun betur út. Mjólkurverðið er komið í 2,22 dkk/kg, fallandi fóðurverð og lækkandi vextir gefa möguleika á að lítilsháttar hagnaður verði af búrekstrinum á þessu ári, um 80.000 dkk. Ef horft er lengra fram í tímann, er þetta þó ekki á nokkurn hátt niðurstaða sem hægt er að sætta sig við. Á einhverjum tímapunkti munu vextir hækka aftur og þá er hærra mjólkurverð grundvallarnauðsyn til að hægt sé að stunda arðsama mjólkurframleiðslu, að mati ráðgjafa þeirra búnaðarsambanda sem áður er um getið.

 

Í töflunni hér að neðan má sjá nánari sundurgreiningu á rekstrarliðum kúabúanna 55.

 

2008 2009 2010
Fjöldi hektara 140 155
Fjöldi árskúa 180 189
Allar upphæðir eru í þús. danskra króna
Búgreinatekjur 5.663 3.894 4.700
Breytilegur kostnaður -2.317 -2.246 -2.100
Framlegð 3.526 1.648 2.600
Fastur kostnaður -1.567 -1.617 -1.650
Virði eigna (aðstaða, jarðnæði og bústofn) -570 -643 -600
Niðurstaða reglulegrar starfsemi (da. resultat af primær drift) 1.389 -612 350
Styrkir frá ESB 573 570 560
Aðrar tekjur -65 38 0
Leiga (á jarðnæði) -231 -256 -230
Vextir -1.306 -1.150 -600
Önnur fjármagnsgjöld -332 -178 0
Rekstrarniðurstaða ársins 28 -1.588 80