2008 verður eitt besta ár sögunnar fyrir danska kúabændur
15.08.2008
Spár um afkomu danskra kúabænda fyrir yfirstandandi og næsta ár lofa góðu. Væntanlega eru danskir kúabændur í miðju ári, sem sagan mun dæma sem afburða gott. Mjólkurverðið hefur verið hátt og þrátt fyrir að fóður og önnur aðföng hafi hækkað í verði, lítur út fyrir að rekstrarniðurstaðan verði sú besta nokkru sinni. Hún er þó nokkuð viðkvæm fyrir þróun eignaverðs, en hluti þess í heildarniðurstöðunni er þó mun minni en á sl. ári.
Afkoma búa með 80-160 árskýr:
Framlegð þessara búa eykst verulega á árinu, mest vegna hærra mjólkurverðs sem búist er við að verði 18% hærra en á sl. ári. Framlegðin eykst einnig vegna aukinnar framleiðslu. Á næsta ári er gert ráð fyrir minni aukningu í framlegðinni, þar sem ívið lægra mjólkurverð mun verða bætt upp og rúmlega það, af aukinni nyt og fleiri gripum. Hagnaðurinn eykst úr 547.000 DKK árið 2007 í 647.000 DKK árið 2008. Búist er við minnkun hagnaðar árið 2009 og að hann verði 581.000 DKK.
Afkoma búa með 240-320 árskýr:
Líkt og á minni búunum verður afkoma í þessum flokki afar góð, bæði á þessu ári og því næsta. Það skal þó tekið tillit til þess að þessi bú verða að greiða laun fyrir mikil ábyrgðarstörf og ávaxta verulega mikið af eigin fé. Séð í því ljósi, eru niðurstöðurnar kannski ekki alveg eins glæsilegar.
Framlegð í þessum flokki eykst um 2.061.000 DKK milli áranna 2007 og 2008. Líkt og á minni búunum er hærra mjólkurverð og aukin framleiðsla skýringin. Búist er við að hagnaður milli þessara sömu ára aukist um 258.000 DKK og verði 1.180.000 DKK á þessu ári. Búist er við því að hagnaðurinn minnki svo aftur á næsta ári, um 205.000 DKK.
Ástæða er til að samgleðjast dönskum kollegum með góðan árangur í rekstri. Íslenskir kúabændur munu þó upplifa þvert hið gagnstæða, þar sem líkast til verður rekstur ársins 2008 einn sá allra erfiðasti nokkru sinni.
Heimild: www.landbrug.dk