20. fundur stjórnar LK 2016-2017
15.02.2017
Tuttugasti fundur stjórnar Landssambands kúabænda, starfsárið 2016-2017, var haldinn miðvikudaginn 25. janúar 2017 kl. 16:00.
Símafundur.
Mætt eru Arnar Árnason formaður, Pétur Diðriksson varaformaður, Elín Heiða Valsdóttir ritari, Bessi Vésteinsson og Samúel Unnsteinn Eyjólfsson. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður býður fundarmenn velkomna og svo er gengið til dagskrár.
Þetta var gert.
- Innheimta félagsgjalda hjá Auðhumlu. Á síðastliðnum stjórnarfundi Auðhumlu vöknuðu upp spurningar meðal stjórnarmeðlima um framkvæmd innheimtu Auðhumlu á félagsgjaldi fyrir LK. Stjórn LK felur framkvæmdastjóra að óska eftir að mæta á næsta stjórnarfund Auðhumlu þann 1. febrúar nk., til að svara öllum þeim spurningum sem stjórn Auðhumlu kann að hafa varðandi málið.
- Ráðstöfun framleiðslujafnvægisliðs búvörusamninga. Liðurinn Framleiðslujafnvægi er hugsaður til að bregðast við umframframleiðslu eða skorti. Í búvörusamningum segir að framkvæmdanefnd búvörusamninga geri tillögu um ráðstöfun fjár samkvæmt grein 6.1. í samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar og verði fjármunirnir ekki nýttir á viðkomandi ári skal þeim ráðstafað á aðra liði samningsins. Telur stjórn mikilvægt að heimild sé til þess að færa fjármagn milli ára, sé það ekki nýtt með þeim hætti sem lagt er upp með í 6. gr. samningsins. Stjórn LK felur formanni, sem á sæti í framkvæmdanefnd búvörusamninga, að leggja fram eftirfarandi tillögu á næsta fundi framkvæmdanefndar: Stjórn LK leggur til að heimilt verði að ráðstafa fjármunum af liðnum Framleiðslujafnvægi í 6.gr. samnings um starfsskilyrði í nautgriparækt á milli ára, séu þeir ekki nýttir samkvæmt grein 6.1 né á aðra liði samningsins á viðkomandi ári.
- Árshátíð LK og fagþing samhliða aðalfundi. Formaður leggur til að sett verði á fót nefnd sem sér um undirbúning og skipulag árhátíðar. Einnig væri skipulag föstudagskvöldsins og makaferðar í höndum nefndarinnar. Stjórn felur formanni að setja á fót árshátíðarnefnd í samstarfi við FEK. Fagráðið hefur borið ábyrgð á fagþinginu og unnið í samráði við LK. Fagráð hefur lýst áhuga á að halda fagþing samhliða aðalfundi í ár og deilir stjórn LK þeim áhuga. Stjórn felur framkvæmdastjóra að setja sig í samband við fagráð og undirbúa fagþing samhliða aðalfundi.
- Framlög til aðildarfélaga LK. Framkvæmdastjóri fór yfir tillögu að skiptingu greiðslna til aðildarfélaga LK í samræmi við fjárhagsáætlun LK. Stjórn samþykkti ráðstöfun og verða framlög greidd til aðildarfélaganna í framhaldinu.
- Önnur mál
- Stjórn mun taka stjórnartillögur á aðalfund LK fyrir á næsta stjórnarfundi. Ljóst er að gera þurfi breytingar á samþykktum félagsins í kjölfar breytts félagsaðildarkerfis.
- Mikil umræða um sýnileika í fjölmiðlum og tækifærin til að koma okkar áherslumálum á framfæri í kringum aðalfund.
Ekki fleira gert og fundi slitið kl. 17.30.
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda