Beint í efni

20 ESB ríki framleiddu ekki upp í kvóta

23.10.2008

Á kvótaárinu 2007-8 sem lauk þann 31. mars sl. náðu 20 af 27 ríkjum Evrópusambandsins ekki að framleiða upp í þann mjólkurkvóta sem þau hafa. Alls var framleiðslan 2,6 milljónum tonna mjólkur undir kvótanum, eða 1,9%. Þau aðildarlönd sem mest vantaði uppá að kvótinn væri fylltur voru Rúmenía (-30%), Búlgaría og Litháen (-15%), Svíþjóð (-12%), Ungverjaland (-11%), Grikkland og Lettland (-8%), Eistland (-7%), Slóvakía og Finnland (-6%) og Slóvenía og Bretland (-5%). Athygli vekur hve mörg af löndum Austur-Evrópu ná ekki að fylla uppí landskvótann, þar sem aðstæður til mjólkurframleiðslu eru þar um margt mjög góðar. Svíþjóð og Bretland hafa hins vegar lengi verið í þessum sporum.

Nákvæmastir voru danskir kúabændur, þar í landi var framleiðslan 4.497.470.537 kg á kvótaárinu, sem er 99,95% af landskvótanum. Það sem uppá vantaði nam framleiðslu á hálfum degi.

 

Þrátt fyrir að heildarkvóti ESB hafi verið þetta langt frá því að vera fylltur, þá losna einstakir framleiðendur sem mest fóru framyfir kvótann ekki við að borga fjársektir vegna offramleiðslu. Alls nema þær 339 milljónum evra fyrir nýliðið kvótaár, samanborið við 221 milljón evra árið áður. Þeir sem mest eiga að borga eru Ítalir, 161 milljón evra (borga reyndar aldrei neitt, og komast upp með það), Þjóðverjar, 102 milljónir, Hollendingar, 40 milljónir og framúrkeyrslubændur í Austurríki þurfa að reiða af hendi 24 milljónir evra, eða 3,6 milljarða króna m.v. núverandi gengi.

 

Það vekur óneitanlega nokkra undrun að þegar sambandið er í þeirri stöðu að ekki er framleitt uppí kvóta, að þá skuli þeir bændur sem fara framyfir þurfa að greiða háar fjársektir, vegna framleiðslu sem skapar engin vandamál. Hún er í raun nauðsynleg til að skapa eðlilegt framboð. Ennfremur stefnir sambandið að því að kvóti í mjólkurframleiðslu falli niður árið 2015, eðlilegur hluti að aðlögun að því væri að fella slíkar sektargreiðslur niður. Ekki fyrir það að margt er skrítið í kýrhausunum í Brussel.

 

Heimild: www.dairyindustrynewsletter.com og www.mejeri.dk