2. fundur stjórnar LK 2018-2019
24.05.2018
Annar fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn miðvikudaginn 25. apríl 2018 kl. 15:00. Símafundur. Hlé var gert á fundi kl.16:45 og haldið áfram kl. 21:00.
Á fundinn mættu Bessi Freyr Vésteinsson, Herdís Magna Gunnarsdóttir, Pétur Diðriksson og Rafn Bergsson. Arnar Árnason boðaði seinkun og kom inn þegar fundi var haldið áfram kl. 21:00 sama dag. Var framkvæmdastjóra falið að setja fundinn. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Framkvæmdastjóri setti fund og svo var gengið til dagskrár.
Þetta var gert:
1. Innlausn ríkisins á greiðslumarki í mjólkurframleiðslu. Á fundi framkvæmdanefndar búvörusamninga 23. apríl var því beint til stjórnar LK að koma með tillögur í samvinnu við BÍ um hvernig við viljum sjá breyttar reglur varðandi innlausn ríkisins. Ýmsar hugmyndir ræddar og er stjórn sammála um að ályktun frá stjórnarfundi 20. apríl 2018 sé skilmerkilegasta leiðin.
Ályktun stjórnar LK: Stjórn Landssambands kúabænda styður þær hugmyndir sem fram hafa komið um að setja þak á magn greiðslumarks sem hver framleiðandi getur óskað eftir á hverjum innlausnarmarkaði fyrir sig og telur rétt að hámarkið skuli bundið við 100.000 lítra. Þá getur hver framleiðandi óskað að hámarki eftir 400.000 lítrum yfir árið, þ.e. 100.000 lítrum að hámarki á hverjum innlausnardegi ársins.
Formaður fer yfir umræður á framkvæmdanefndarfundi sem haldinn var 23. apríl. Ýmsir meinbugir virðast vera á að endurskoða 54. grein búvörulaga, sem heimilar tilfærslu greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila, líkt og stjórn LK ályktaði um á fundi stjórnarinnar 20. apríl sl. Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna áfram og fá lögfræðilegt álit í samstarfi við BÍ.
2. Ályktanir aðalfundar LK 2018.
- Endurskoðun félagskerfis bænda. – Ályktun send til BÍ.
- Búreikningar. – Fyrirspurn send á samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga og óskað eftir upplýsingum frá Hagstofu um stöðu máls.
- Veffræðsla. – Hlé verður gert á Veffræðslu eftir líðandi vetur. Snorra Sigurðssyni falið að færa fyrirlestra yfir á youtube/vimeo. Breytt um tölvukerfi sem heldur utanum veffræðsluna frá og með 1. júlí 2018. Veffræðsluerindi verða gerð aðgengileg á naut.is og framkvæmdastjóra falið að kanna möguleikann á að hafa aðgengi áfram ókeypis og sem einfaldast fyrir félagsmenn LK.
- Rekstrarkostnaður búa. – Ályktun send á RML. Stjórn LK vinnur áfram í samstarfi við RML.
- Upphæð félagsgjalda til Landssambands kúabænda. – Upphæð félagsgjalda afgreidd og framkvæmdastjóra falið að koma á fót skráningarkerfi fyrir hollvini á naut.is.
- Aðgerðir vegna niðurstöðu EFTA-dómstólsins. – Ályktun send á atvinnuvegaráðuneytið og BÍ og fylgt eftir á fundi með ráðherra.
- Tollvernd íslensks landbúnaðar. – Ályktun send á atvinnuvegaráðuneytið og BÍ og fylgt eftir á fundi með ráðherra.
- Nýr viðskiptasamningur við Bretland. – Ályktun send á utanríkisráðuneytið, atvinnuvegaráðuneytið og BÍ og fylgt eftir á fundi með ráðherra.
- Upprunamerkingar og upplýsingagjöf til neytenda. – Sent á atvinnuvegaráðuneytið, MAST og BÍ og fylgt eftir á fundi með ráðherra og MAST. Einnig send á Neytendasamtökin.
- Endurskoðun tollasamnings. – Ályktun send á atvinnuvegaráðuneytið og BÍ og fylgt eftir á fundi með ráðherra.
- Verðlagsgrundvöllur kúabús. – Ályktun send á atvinnuvegaráðuneytið og BÍ og fylgt eftir á fundi með ráðherra.
- Verðlagning mjólkurafurða. – Ályktun send á atvinnuvegaráðuneytið og BÍ og fylgt eftir á fundi með ráðherra. Tekið tillit til ályktunar 13 í því samhengi.
- Misvægi í sölu á fitu og próteini. – Ályktun send á Auðhumlu og KS og SAM. Tekið tillit til ályktunar 12 í því samhengi. Stjórn LK sammála um að tekjumarkaleiðin væri góður valkostur til að vinna á hluta áskorunarinnar.
- Undirbúningur atkvæðagreiðslu um kvótakerfi. – Ályktun send á BÍ og fylgt eftir á fundi með formanni og framkvæmdastjóra um næstu skref.
- Framleiðslustýring í mjólkurframleiðslu. – Ályktun þessi fylgir áframhaldandi undirbúningsvinnu við atkvæðagreiðslu um kvóta í mjólkurframleiðslu. Send á BÍ og fylgt eftir á fundi með formanni og framkvæmdastjóra um næstu skref.
- Innlausn á greiðslumarki. – Ályktun send á MAST og atvinnuvegaráðuneytið og fylgt eftir á fundi með ráðherra og MAST.
- Stefnumótun í mjólkurframleiðslu. – Stefnumótun unnin áfram innan stjórnar LK.
- Framtíð Landbúnaðarháskóla Íslands. – Send á LbhÍ, atvinnuvegaráðuneytið og menntamálaráðuneytið.
- Kolefnisspor nautgriparæktarinnar. – Ályktun send á atvinnuvegaráðuneytið og umhverfisráðuneytið og fylgt á eftir á fundi með ráðherra.
- Lífræn framleiðsla. – Unnið áfram innan stjórnar LK.
- Endurskoðun á aðbúnaðarreglugerð nautgripa. – Ályktun send á fagráð, BÍ, atvinnuvegaráðuneyti, RML og MAST. Framkvæmdastjóra falið að óska eftir athugasemdum frá Jarle Reiersen.
- Menntamál. – Ályktun send á LbhÍ.
- Stjórn Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins. – Ályktun send á BÍ og RML.
- Aukin ráðgjöf við byggingaframkvæmdir. – Ályktun send á RML.
- Skilgreining styrkhæfs vélbúnaðar. – Ályktun send á MAST.
- Litalyklar í Huppu. – Ályktun send á BÍ.
- Stefnumótun í nautakjötsframleiðslu 2018-2028. – Stefnumótun unnin áfram innan stjórnar LK.
- Sjúkdómaskráning og lyfjanotkun. – Ályktun send á MAST, atvinnuvegaráðuneytið og Dýralæknafélagið.
- Afhending dýralyfja. – Ályktun send á MAST og atvinnuvegaráðuneytið.
- Vöktun á fjölda gripa til nautakjötsframleiðslu. – Ályktun send á RML og fylgt áfram í samstarfi við RML.
- Ræktunarmarkmið nautgriparæktarinnar. – Ályktun send á fagráð nautgriparæktarinnar.
- Áætlun um förgun búfjár vegna sjúkdóma. – Ályktun send á MAST og atvinnuvegaráðuneytið og fylgt eftir á fundi með ráðherra og MAST.
3. Undirbúningsvinna fyrir atkvæðagreiðslu um kvótakerfi í mjólkurframleiðslu. Formaður reifaði fund sem hann og framkvæmdastjóri áttu með formanni og framkvæmdastjóra BÍ mánudagin 23. apríl. Á þeim fundi var óskað eftir frekari afstöðu frá stjórn LK, þá sérstaklega hvað varðar skiptingu stuðningsgreiðslna á liði búvörusamnings nautgriparæktarinnar. Miklar umræður um núverandi skiptingu stuðnings og áhrif ýmissa breytinga á þeim. Framkvæmdastjóra falið að setja upp sviðsmyndir sem sýna hvaða áhrif mismunandi stuðningshlutföll þýða í stuðningi til bænda miðað fyrir næsta stjórnarfund.
4. Doktorsnám á sviði erfðamengisúrvals í nautgriparækt. BÍ hefur sent fyrirspurn um hvort LK sé reiðubúið að skrifa undir yfirlýsingu ásamt BÍ og Auðhumlu um að taka ábyrgð á þeim kostnaði doktorsnema í verkefni um erfðamengisúrval í nautgriparækt sem ekki fást styrkir fyrir. Er undirritun yfirlýsingarinnar í takt við eftirfarandi ályktun aðalfundar LK frá 2017:
Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.- 25. mars 2017 leggur til að Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands kosti sameiginlega laun doktorsnema á sviði erfðamengisúrvals í nautgriparækt. Verkefnið verði fjármagnað af þeim hluta Framleiðsluráðssjóðs sem féll í hlut LK og BÍ við slit sjóðsins á liðnu ári.
Greinargerð: Á vettvangi samtaka bænda er nú unnið að innleiðingu á erfðamengisúrvali í nautgriparækt, sem að líkindum mun stuðla að einhverri mestu byltingu á kynbótastarfi nautgriparæktarinnar í áratugi. Hingað til hefur verkefnið verið fjármagnað með stuðningi úr þróunarsjóði nautgriparæktar og hlut LK í Framleiðsluráðssjóði. Einnig hefur verið sótt um stuðning við það úr Framleiðnisjóði.
Fyrir liggur að verkefnið er mjög umfangsmikið, þróun erfðamengisúrvals er ör og með innleiðingu þess þarf að endurskipuleggja marga þætti kynbótastarfsins frá grunni. Skilvirkasta leiðin til að byggja upp þekkingu hér innanlands, bæði fyrir núverandi bændur og (nýjar) komandi kynslóðir, er að styðja öfluga nemendur til framhaldsnáms á þessu fræðasviði.
Stjórn felur formanni að rita undir yfirlýsinguna fyrir hönd LK.
5. Önnur mál.
- Miklar umræður um stöðu nautakjötsframleiðslu. 1. maí tekur nýr tollasamningur milli Íslands og Evrópusambandsins gildi sem felur í sér tæplega sjöföldun á tollfrjálsum innflutningi nautakjöts frá löndum ESB á næstu 4 árum. Einnig taka launahækkanir gildi 1. maí og virðist það skila sér í lækkun launaliðar bænda með lækkun verðs frá sláturleyfishöfum. Þess fyrir utan er ljóst að áhrif niðurstöðu EFTA-dómstólsins getur haft mikil áhrif á nautakjötsframleiðslu hér á landi komi ekki til mótvægisaðgerða.
- Stjórn samþykkir að hafa fasta fundardaga fyrir símafundi og henta kvöldfundir kl. 21 á miðvikudögum best. Stefnt er á símafundi á 2 vikna fresti.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 22:05.
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda