2. fundur stjórnar LK 2017-2018
04.05.2017
Annar fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2017-2018, var haldinn á skrifstofu samtakanna að Hagatorgi 1, 107 Reykjavík, þriðjudaginn 25. apríl kl. 10:30.
Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Pétur Diðriksson, Bessi Freyr Vésteinsson, Herdís Magna Gunnarsdóttir og Rafn Bergsson, sem annar varamaður fyrir Elínu Heiðu Valsdóttur. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.
Þetta var gert.
- Fundargerðir fyrri funda. Ritað var undir áður samþykktar fundargerðir 22.-25. fundar starfsárs 2016-2017 sem hafa áður verið birtar á naut.is.
- Kosningar í embætti innan stjórnar. Pétur Diðriksson var kosinn varaformaður með 5 atkvæðum og Elín Heiða Valsdóttir ritari með 5 atkvæðum.
- Tilnefningar í nefndir og ráð. Formaður gerir tillögu um að framkvæmdastjóri taki sæti LK í fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins. Stjórn samþykkir þá tillögu og sammála um að þennan vettvang mætti nýta betur. Formaður gerir tillögu um að Herdís Magna Gunnarsdóttir taki sæti LK í samstarfsnefnd SAM og BÍ. Stuttlega rætt um hlutverk nefndarinnar, sem er að staðfesta mjólkuruppgjör hvers verðlagsárs og að vera sameiginlegur umræðuvettvangur samtaka bænda og mjólkuriðnaðarins. Nefndin fer einnig yfir nýtingarstuðla mjólkurafurða varðandi fitu og prótein. Stjórn samþykkir fram komna tillögu. Fagráð í nautgriparækt. Tillaga um óbreytta skipan fulltrúa: Guðný Helga Björnsdóttir, Bessastöðum, verði áfram formaður fagráðsins sem fulltrúi LK, aðrir fulltrúar LK verði Þórarinn Leifsson, Keldudal, og Pétur Diðriksson, Helgavatni. Nokkuð rætt um mikilvægi rannsóknarstarfs í íslenskum landbúnaði og starfsemi LbHÍ.
- Fundaráætlun stjórnar árið 2017-2018. Framkvæmdastjóri gerir tillögu að föstum fundum út árið 2017, utan símafunda. 18./25. maí, 24./31. ágúst, 12./19. október og 7./14. desember. Dagskrá seinni hluta starfsárs, frá áramótum fram að aðalfundi 2018, verður sett upp síðar. Stjórn sammála um að þessir fundir verði betur nýttir til að fá gesti og símafundir fyrir afgreiðslu annarra mála.
- Aðalfundur og árshátíð LK 2018. Hagstæðast fyrir samtökin að vera í Reykjavík á Hótel Sögu. Stefnt er að því að halda aðalfundinn 17.-18. mars 2018. Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram.
- Ályktanir aðalfundar. Framkvæmdastjóri kemur með tillögu að afgreiðslu þeirra ályktana sem samþykktar voru á aðalfundi LK. Stjórn samþykkir eftirfarandi afgreiðslu:
- Stefnumörkun í mjólkurframleiðslu – Formanni og framkvæmdastjóra falið að koma með tillögu að samsetningu vinnuhóps. Mikilvægt að helstu hagsmunaaðilar og þversnið af bændum komi að vinnunni.
- Stefnumörkun í nautakjötsframleiðslu – Formanni og framkvæmdastjóra falið að koma með tillögu að samsetningu vinnuhóps. Mikilvægt að helstu hagsmunaaðilar og þversnið af bændum komi að vinnunni. Einnig rætt um aðkomu aðila úr veitingaþjónustu og verslunarumhverfinu.
- Framleiðsluspá í nautakjötsframleiðslu – Sent á RML og BÍ og fylgt eftir með fundi með RML.
- Bann við innflutningi á hráu og ófrosnu kjöti – Sent á framkvæmdastjóra þingflokka, atvinnuvegaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti og Landlæknisembættið. Fylgt eftir með fundi með landbúnaðarráðherra og síðar með þingflokkum.
- Tollvernd íslensks landbúnaðar – Sent á atvinnuvegaráðuneyti og fylgt eftir með fundi með landbúnaðarráðherra og síðar með þingflokkum.
- Áskorun til stjórnvalda um greiningu á áhrifum aukins innflutnings á landbúnaðarvörum frá Evrópusambandinu. – Sent á atvinnuvegaráðuneyti og fylgt eftir með fundi með landbúnaðarráðherra og síðar með þingflokkum. Einnig sent á innanríkisráðuneyti m.t.t. byggðasjónarmiða.
- Útflutningur landbúnaðarafurða til Bretlands – Sent á BÍ og utanríkisráðuneyti. Nú þegar hefur verið fundað með utanríkisráðherra vegna málsins (sjá lið 9 í fundargerð).
- Upprunamerkingar og upplýsingagjöf til neytenda – Sent á atvinnuvegaráðuneyti og MAST. Fylgt eftir með fundi með landbúnaðarráðherra, MAST og síðar með þingflokkum.
- Eignarhald og nýting bújarða – Sent á atvinnuvegaráðuneyti og fjármálaráðuneyti. Fylgt eftir með fundi með landbúnaðarráðherra og fjármálaráðherra.
- Ríkisjarðir – Sent á fjármálaráðuneyti og fylgt eftir með fundi með fjármálaráðherra.
- Skilgreining nýliða í búvörusamningum – Sent á atvinnuvegaráðuneyti, BÍ og MAST og fylgt eftir með fundi með landbúnaðarráðherra.
- Afkoma bænda – Sent á atvinnuvegaráðuneyti.
- Tryggingamál bænda – Samtal komið af stað við tryggingafélög. Framkvæmdastjóra falið að vinna málið áfram.
- Kaup á Nautastöðinni að Hesti – Sent á BÍ og fylgt eftir með fundi með BÍ.
- Viðræður við MAST um verklagsreglur – Sent á MAST og samráðshóp BÍ og MAST.
- Mat á aðbúnaðarreglugerð nautgripa – Málinu vísað til Fagráðs og óskað eftir tillögu frá þeim að mögulegum breytingum á reglugerðinni.
- Skráningar á kálfum – Sent á MAST og atvinnuvegaráðuneyti.
- Fóðurnotkun í nautgriparækt – Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram. Skýrslu skilað fyrir aðalfund 2018.
- Kolefnisspor – Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram.
- Rannsóknir í landbúnaði – Sent á atvinnuvegaráðuneyti, BÍ, LbHÍ og Fagráð.
- Rannsóknir vegna losunar metangas í landbúnaði – Sent á LbHÍ og Fagráð og umhverfisráðuneyti til upplýsinga.
- Rannsóknir á efnasamsetningu íslensku kúamjólkurinnar – Sent á BÍ, LbHÍ og Fagráð.
- Framtíð LbHÍ – Sent á menntamálaráðuneyti, BÍ og LbHÍ.
- Doktorsnám á sviði erfðamengisúrvals í nautgriparækt – Sent á BÍ og Fagráð og fylgt eftir með fundi með BÍ.
- Kennsla í nautgriparækt – Sent á LbHÍ.
- Áskorun til Auðhumlu – Sent á Auðhumlu og fylgt eftir með samtali við framkvæmdastjóra Auðhumlu.
- Kynning á EUROP-kjötsmatskerfinu – Kynningarefni verður birt á naut.is um leið og reglugerð er birt.
- Fríar fitusýrur í tankmjólk – Framkvæmdastjóra falið að skoða málið betur.
- Forritið Jörð.is – Sent á BÍ og fylgt eftir með fundi.
- Forritið Huppa.is og snjalltækjavæðing – Sent til BÍ og fylgt eftir með fundi.
- Upplýsingafulltrúi bænda – Sent til BÍ.
- Efling tengsla um landbúnaðinn – Sent til BÍ og fylgt eftir með fundi.
- Breytingar á samþykktum LK – Búið að birta á naut.is.
- Sjálfstæði aðildarfélaga LK – Kveðið á um í samþykktum LK.
- Árgjald hollvina Landssambands kúabænda – Framkvæmdastjóra falið að finna skráningarkerfi svo hægt verði að skrá sig á naut.is.
- Óbreytt árgjald félagsmanna LK – Afgreitt.
- Haustfundir – Stjórn tekur fyrir síðar á árinu.
- Tekjuöflun – Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram.
- Framleiðsluráðssjóður – Afgreitt.
- Launamál stjórnar – Afgreitt.
- Verklagsreglur vegna greiðslna dagpeninga – Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram.
- Hagrænt vægi eiginleika í nautgriparækt. Framkvæmdastjóri kynnir málið fyrir stjórn. Verkefnið tengist Erfðamengisúrvals-verkefninu sterkum böndum og snýr að því að meta raunverulegt verðgildi framfara í eiginleikum sem standa að baki ræktunarmarkmiðum og geta þannig ákveðið vægi eiginleikanna í heildareinkunn. Í verkefninu er ætlunin að safna upplýsingum sem til þarf og meta hagrænt vægi eiginleika sem valið er fyrir í kynbótum nautgripa. Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir frá RML var í símanum. Óskað hefur verið eftir fjárhagslegri aðkomu LK að verkefninu. Búið er að sækja um fjármagn í Framleiðnisjóð og mun Fagráð taka umsóknina fyrir á fundi síðar í dag, þriðjudaginn 25. apríl. Stjórn LK er sammála um að bíða eftir niðurstöðu Fagráðs áður en tekin er ákvörðun um styrkveitingar til verkefnisins.
- Staða Nautís. Framkvæmdastjóri fór yfir niðurstöður aðalfundar Nautís sem haldinn var að Stóra-Ármóti 31. mars sl. Gert er ráð fyrir að vanti um 15-20 milljónir á rekstrarárinu 2017. Rætt var um möguleika þess að nýta framleiðslujafnvægislið búvörusamninga til að mæta þeim kostnaði. Stjórn samþykkir að leggja slíka tillögu fram á fundi framkvæmdanefndar búvörusamninga sem haldinn verður 27. apríl.
- Hagsmunir kúabænda í tengslum við Brexit. Gera þarf nýjan tollasamning við Bretland eftir útgöngu þeirra úr ESB. Óskað hefur verið eftir samantekt samtakanna á helstu hagsmunum búgreinarinnar í því samhengi. Helstu hagsmunir kúabænda snúa að útflutningi á skyri og að magn innflutnings á nautakjöti frá Bretlandi haldist í sama horfi og áður hefur verið. Framkvæmdastjóra falið að vinna málið áfram.
- Fæðingarorlof framkvæmdastjóra. Framkvæmdastjóri tekur fæðingarorlof í 6 mánuði, frá 1. júlí 2017 – 1. janúar 2018. Lokað er á skrifstofu samtakanna í júlímánuði en framkvæmdastjóri og formaður taka helstu mál sem upp koma þann mánuðinn. Stjórn er sammála um að ráða einstakling í 50% stöðu framkvæmdastjóra frá og með 1. ágúst 2017 og út árið. Dregið verður úr starfsemi samtakanna á þeim tíma sem því starfshlutfalli nemur. Formanni falið að vinna málið áfram.
- Fundur formanns LK með BÍ og öðrum búgreinafélögum varðandi samstarf og hagræðingu. Formaður mun sitja fund með áðurnefndum aðilum fimmtudaginn 27. apríl nk. Stjórn er sammála um að frekar eigi að líta til aukningar fjármagns til samtakanna í stað samdráttar í rekstri og mikilvægt sé að halda rekstri samtakanna sjálfstæðum. Stærsta áskorun þessarar stjórnar að hámarka fjármögnun félagsins og ná að halda rekstrinum sjálfstæðum. Miklar umræður um þátttöku í LK og fjölgun félaga en nú eru rúmlega 60% framleiðenda skráðir í samtökin.
- Önnur mál
- Framkvæmdastjóri fór yfir aðgerðir til hagræðingar í rekstri samtakanna. Búið að endursemja um tryggingar og símakostnað, skera niður í styrkveitingum og ýmsum útgjöldum sem ekki eiga lengur við, sbr. gulu síðurnar og finna.is.
- Stjórn samþykkir að lagt verði til á fundi framkvæmdanefndar búvörusamninga 27. apríl nk. að fjármagn framleiðslujafnvægisliðs -utan þess fjármagns sem lagt er til að skuli sett í lið 9.2 samningsins: greiðslur vegna nautakjötsframleiðslu- verði ráðstafa til 8. gr. búvörusamnings: Fjárfestingarstuðningur.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 17.30
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda