Beint í efni

2. fundur LK 2021-2022

25.08.2021

Annar fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2021-2022 var haldinn miðvikudaginn 19. maí kl. 10:00 í Bændahöllinnni að Hagatorgi í Reykjavík. Mætt eru Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Rafn Bergsson, Sigurbjörg Ottesen og Vaka Sigurðardóttir. Bjarni Ragnar Brynjólfsson frá MS var gestur undir lið 2, Hlynur Gauti Sigurðsson og Jóhann Gísli Jóhannsson frá Landssamtökum skógareigenda voru gestir undir lið 3 og Guðmundur Jóhannesson frá RML var gestur undir lið 4. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

  1. Undirritun fundargerða. Ritað undir fundargerðir fyrri funda sem áður höfðu verið samþykktar í gegnum tölvupóst og birtar á naut.is.
  2. Framleiðsluspá ársins.Framleiðsla fyrstu 4 mánuði ársins er 2,9% minni en á sama tíma í fyrra. Sala á fitugrunni hefur dregist saman um 2,5% á 12 mánaða tímabili og á próteingrunni um 4,4%. Miðað við óbreytta mjólkurframleiðslu frá hverjum mjólkandi grip skilar framleiðsluspá ársins 2021 nú spá um að innvigtun ársins verði 146,9 millj. ltr. Spáin hækkar um 1 millj. lítra frá síðasta mánuði (0,7%). Innvigtun eftir hvern burð hækkaði um 1,2% frá 2018 til 2019 og um 0,3% frá 2019 til 2020.  Sé innvigtun eftir hvern burð hækkuð um 1% frá því sem var árið 2020 skilar módelið spá um 148,4 millj. lítra framleiðslu árið 2021. Í samanburði við árið 2020 er meðalinnvigtun á grip fyrstu fimm mánuði 2021 um 1,7% lægri fyrstu fjóra  mánuði 2020. Innvigtun á grip í viku 19 er 3,1% lægri en um miðjan maí 2020. Mjólkandi kýr eru 0,3-0,6% færri það sem af er ári 2021, frá því sem var 2020. Á móti fjölgar kelfdum kvígum og kvígukálfum. Gripafjöldi er því í sæmilegu jafnvægi. Burðum fækkar um 276 á síðustu tólf mánuðum (0,9%).  Burðum fækkar hægt áfram, fyrstu fjóra mánuði 2021 eru burðir um 2,5% færri en á fyrstu mánuðum 2020. Í upphafi árs 2021 fækkar sæðingum hægt miðað við upphaf árs 2020, um 2-4% eftir því hvort horft er á fyrstu sæðingar, endursæðingar eða allar sæðingar samtals. Miðað við núverandi upplýsingar lítur út fyrir að mjólkandi gripum fækki hægt áfram og þróun innvigtunar á hvern grip verði afgerandi þáttur í þróun innvigtunar á árinu.
  1. Kolefnisbrúin.Umræður um stöðu mála hjá Kolefnisbrúnni. Stærsta áskorunin nú að tryggja verkefninu fjármagn til að tryggja framgang þess. Umræður um staðla og vottunarkerfi og einnig möguleikann á vottun bindingar eldri skóga. Þá var einnig rætt um aðra þætti landbúnaðar en skógrækt sem hluta af Kolefnisbrúnni.
  2. Kálfadauði í íslenskri nautgriparækt. Farið yfir skýrslu um kálfadauða sem fer að koma út. Markmiðið er að kanna viðhorf og upplifun bænda á kálfadauða hjá fyrsta kálfs kvígum á sínu búi og skoða áhrif bústjórnar, aðbúnaðar og fóðrunar á kálfadauða hjá fyrsta kálfs kvígum. Helstu niðurstöður verkefnisins eru þær að engin ein einhlít skýring er á miklum kálfadauða hjá 1. kálfs kvígum á Íslandi en  með góðri bústjórn má minnka kálfadauða verulega. Góð fóðrun, umhirða, aðbúnaður og eftirlit getur minnkað tíðni kálfadauða umtalsvert. Markviss og skipuleg notkun burðarstía getur minnkað tíðni kálfadauða – flutningur gripa í burðarstíu eftir að burður er hafinn eykur tíðni kálfdauða. Þekkt væntanleg burðardagsetning getur minnkað tíðni kálfadauða – notkun sæðinga stuðlar því að minni kálfadauða.
  3. Samkomulag um verkskiptingu milli LK og BÍ eftir sameiningu. Framkvæmdastjóri kynnir drög að samkomulagi. Öll núverandi starfsemi LK færist undir BÍ og starfsmenn LK verða starfsmenn BÍ. Stjórn deildar kúabænda er einnig stjórn LK og mun halda utanum um núverandi sjóði LK. Deild kúabænda mun fara með þau málefni sem snúa að búgreininni milli árlegra búgreinaþinga, í samræmi við stefnu BÍ, um það sem ekki fellur undir sameiginleg málefni.
  4. Önnur mál
  • Landbúnaðarstefna fyrir Ísland, Ræktum Ísland var kynnt á opnum streymisfundi um daginn. Hægt að senda inn umsögn til 26. maí nk. og verður send inn sameiginleg umsögn frá BÍ.
  • Formaður og framkvæmdastjór funda með LbhÍ, NBÍ og MS á fimmtudag í kjölfar ályktana aðalfundar. Búið að funda með MAST og RML.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16:00

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda