Beint í efni

2. fundur LK 2020-2021

03.12.2020

Annar fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2020-2021 var haldinn mánudaginn 16. nóvember kl. 13:00 í gegnum fjarfundarbúnað. Mætt eru Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Rafn Bergsson, Sigurbjörg Ottesen og Vaka Sigurðardóttir. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Þetta var gert:

  1. Afgreiðsla fundargerðar 1. fundar stjórnar 2020-2021. Fundargerð samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
  2. Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum og búnaðarlögum (verðlagsnefnd, undanþágur frá samkeppnislögum, verðjöfnunargjöld)mál nr. 229  Framkvæmdastjóri leggur fram drög að umsögn. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að úr búvörulögum falli eftirfarandi liður: „ að kjör þeirra sem landbúnað stunda verði í sem nánustu samræmi við kjör annarra stétta,” og við það er gerðar alvarlegar athugasemdir. Eins gagnrýnir LK að lagt sé til að fagráð búgreina séu ekki skipuð að fenginni umsögn BÍ og framkvæmdanefnd búvörusamninga skuli lögð niður. Í frumvarpinu er lagt til að verðlagsnefnd búvöru verði lögð niður, engin opinber verðlagning sé á mjólkurvörum og stjórnvöld komi ekki að ákvörðun um lágmarksverð til bænda fyrir mjólk innan greiðslumarks. Þá er einnig lagt til að fella burt ákvæði um tímasetningu greiðslna til bænda og einnig að mjólkurframleiðsla verði ekki lengur með undanþágu frá ákvæði samkeppnislaga. Stjórn LK leggst alfarið gegn því að frumvarpið verði samþykkt.
  3. Umsögn um tillögu til þingsályktunar um stóreflingu innlendrar matvælaframleiðslu og öruggt og fyrirsjáanlegt rekstrarumhverfi landbúnaðarFramkvæmdastjóri leggur fram drög að umsögn. Tillagan felur í sér 24 aðgerðir sem snúa að eflingu landbúnaðar á hinum ýmsu sviðum. Í umsögn LK er bent á erfiða stöðu nautakjötsframleiðslu, tekið undir þá aðgerð að segja upp tollasamningi við Evrópusambandið og einnig tekið undir að styrkja regluverk um upprunamerkingar. Þá er bent á kröfu Finna um skýrar upprunamerkingar á veitingahúsum. Stjórn LK tekur undir það sem fram kemur í tillögunni og hvetur til þess að hún verði samþykkt.
  4. Ráðstöfun á fjármagni af framleiðslujafnvægis. Umræður um þróunarfé nautgriparæktar, aðgerðir í loftslagsmálum og markaðssetningu nautakjöts. Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna áfram.
  5. Erindi til framkvæmdanefndar búvörusamninga um endurreiknaða ríkisstuðla fyrir mjólk og leiðréttingu á skráðri útflutningsskyldu. Framkvæmdanefnd búvörusamninga hefur borist erindi frá SAM og óskað eftir afstöðu LK. Erindi lagt fyrir stjórn. Síðasta heildarendurskoðun og breyting tók gildi 1. júní 2017. Síðan þá hafa einstaka stuðlar tekið breytingum vegna breyttra framleiðsluaðferða og markaðssetningar nýrra vara. Áhrif breytinganna nú eru þau að seldar afurðir á próteingrunni fara úr 122,5 milljón lítrum í 123,4 milljón lítra, eða hækkun um rúmlega 900 þúsund lítra. Á fitugrunni fer salan úr 145,1 milljón lítrum í 143,1 milljón lítra, eða lækkun um rúmar 2 milljónir lítra. (sept 2020). Nokkrar umræður um málið. Stjórn setur sig ekki upp á móti endurskoðun enda byggja útreikningar á fyrirliggjandi gögnum um nýtingu frá iðnaðinum.

Umræður um leiðréttingu á skráðri útflutningsskyldu. . Erindi hafði ekki verið afgreitt á sínum tíma og skapaðist aukin útflutningsskylda sökum þess. Í lok árs 2016 voru óútfluttir 2.772.329 lítrar af umframmjólk ársins 2016 og af umframmjólk 2015 sé hún innifalin í útflutningsskyldu og er það magn inni í bókhaldi um útflutningsskyldu. Það er því óskað eftir að leiðrétting á útflutningsskyldu sé staðfest og lækkuð um sem nemur fyrrgreindu magni. Stjórn setur sig ekki á móti leiðréttingunni.

  1. Skipan í starfshóp um sæðingagjöld. Stjórn BÍ hefur ákveðið að skipa Hermann Inga Gunnarsson, stjórnarmann í BÍ, og Guðbjörgu Jónsdóttur, verkefnastjóra hjá BÍ, sem fulltrúa í starfshóp til að fjalla um og gera tillögur að mögulegum lausnum til að jafna kostnað bænda við kúasæðingar. Stjórn samþykkir að skipa Rafn Bergsson og Sigurbjörgu Ottesen sem sína fulltrúa í starfshópinn.
  2. Önnur mál.
    1. Herdís hefur verið í sambandi við formann landssamtaka sláturleyfishafa varðandi möguleika bænda á að slátra kúm og gefa kjötið til Fjölskylduhjálpar. Í vinnslu.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 15.20

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda