Beint í efni

19. fundur stjórnar LK 2016-2017

15.02.2017

Nítjándi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2016-2017 var haldinn fimmtudaginn 5. janúar kl. 9:30 á skrifstofu Bændasamtakanna, Hagatorgi 1, 107 Reykjavík.

Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Pétur Diðriksson, varaformaður, Elín Heiða Valdóttir, ritari, Bessi Freyr Vésteinsson og Samúel Unnsteinn Eyjólfsson. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna og svo er gengið til dagskrár.

Þetta var gert.

  1. Afgreiðsla fundargerða. Undirritun áður samþykktra fundargerða stjórnar, 14., 15., 16. og 17. fundar stjórnar LK starfsárið 2016-2017, sem þegar hafa verið birtar á naut.is, og afgreiðsla fundargerðar 18. fundar stjórnar sem verður birt á naut.is í kjölfarið.
  1. Efni formannafundar og kjörgengi. Framkvæmdastjóri fór yfir efni formannafundar sem haldinn er í Bændahöllinni kl. 13:00 fimmtudaginn 5. janúar. Mikið var rætt um hverjir hefðu kjörgengi á aðalfundum aðildarfélaga til að kjósa um fulltrúa á aðalfund LK og hvort kæmi til greina að bjóða uppá aukaaðild sem fæli ekki í sér nein félagsleg réttindi. Stjórn leggur eftirfarandi tillögu fyrir formannafund: Stjórn LK gerir það að tillögu sinni að fjöldi fulltrúa á aðalfundi LK árið 2017 skuli miðast við félagatöl aðildarfélaga í lok árs 2016 líkt og kveðið er á um í 10. gr. í samþykktum LK, óháð greiðslum félagsgjalds frá 1. janúar 2017. Þó skulu kosnir aðalfundarfulltrúar aðildarfélaga hafa greitt félagsgjald samkvæmt grein 3.2.a.
  1. Framlög til aðildarfélaga LK. Framkvæmdastjóri kynnti grunn að framlögum til aðildarfélaga og hvernig þeim hefur verið háttað hingað til. Ekki hafa öll aðildarfélög skilað inn félagatali og frestast lokaútreikningur og greiðsla framlaga fyrir árið 2016 þar til það liggur fyrir.
  1. Ráðstöfun fjármuna nautgriparæktarinnar vegna slita á Framleiðsluráðssjóði. Framkvæmdastjóri kynnti tillögu að ráðstöfun fjármuna inná sparnaðarreikning. Ekki er gert ráð fyrir að greiða úr sjóðnum á næstu mánuðum og því verða fjármunirnir fyrst lagðir inn á reikning bundinn til 3 mánaða og í kjölfarið fært yfir á fjárhæða- og tímaþrepsreikning. Stjórn felur framkvæmdastjóra að skoða mögulegar arðbærari ávöxtunarleiðir án þess þó að binda fjármagnið til of langs tíma.
  1. Staða samþykkta aðalfundar LK 2016. Framkvæmdastjóri fer yfir stöðu samþykkta frá aðalfundi LK 1. apríl 2016. Flest málanna hafa verið til lykta leidd eða eru í vinnslu. Stjórn felur framkvæmdastjóra að fara vel yfir þær ályktanir sem útaf standa og koma málum í þann farveg sem við á hverju sinni.
  1. Boðun á aðalfund. Boða skal aðalfund fyrir 10. janúar nk. svo það sé gert með lögmætum hætti. Stjórn felur framkvæmdastjóra að útbúa fundarboð um leið og upplýsingar um félagatöl hafa borist frá öllum aðildarfélögum. Formaður mun senda fundarboðið út til formanna aðildarfélaga LK í fjarveru framkvæmdastjóra (sjá undir önnur mál).
  1. Önnur mál
  • Framkvæmdastjóri verður í fríi frá 6.-22. janúar. Formaður sinnir áríðandi erindum í fjarveru framkvæmdastjóra.
  • Stefnumótun í íslenskri nautakjötsframleiðslu. Stjórn telur mikilvægt að lyfta nautakjötsframleiðslu hærra. Rætt var m.a. um endurskipun kjötráðs. Málið verður tekið fyrir á stjórnafundi þar sem farið verður yfir stjórnartillögur á aðalfund LK.
  • Næsti fundur stjórnar. Samþykkt að boða til næsta fundar um mánaðarmótin janúar/febrúar.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 12:30

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda