Beint í efni

18 ára stúlka talskona bandarískra kúabænda!

26.05.2011

Flest hagsmunasamtök þekkja það vel að það getur verið afar erfitt að koma skoðunum á framfæri við almenning. Til þess að ná athygli fjölmiðla þarf oft að hafa slagkraft og því ráða aðilar oft sérstaka talsmenn eða sk. fjölmiðlafulltrúa. Þetta þekkja hérlendir bændur vel og þó svo að hér á landi starfi enginn slíkur, þá hafa kúabændur í Bandaríkjunum nýlega ráðið sér talskonu. Það sem er óvenjulegt við val þeirra á talskonu að hún er ekki gamalreynd fjölmiðlakona eða gamall stjórnmálamaður eins og oft er um að ræða, heldur einungis 18 ára stúlka sem heitir Teresa Scanlan. Teresa hefur strax sýnt að hún á afar auðvelt með að koma sjónarmiðum nautgriparæktarinnar í gegn í bandarískum fjölmiðlum og dagljóst að þarlendir kúabændur eru sáttir við ráðninguna.

 

En hvernig nær hún að koma sjónarmiðum nautgriparæktar á framfæri í hinum harða heimi fjölmiðla vestra? Jú það vill svo skemmtilega til að hún er, auk starfs síns fyrir kúabændur, einnig nýkjörin fegursta kona Bandaríkjanna og skartar titlinum „Ungfrú Ameríka 2011“.

 

Á liðnum árum hafa bandarískir bændur oft kvartað yfir skilningsleysi samborgara sinna, sér í lagi þeirra sem búa í þéttbýlinu og til þess hóps nær Teresa. Hún þekkir reyndar sjálf landbúnað vel enda alin upp í Nebraska þar sem landbúnaður er stór hluti af daglegu lífi fólks. Teresa leggur mikla áherslu á það að tryggja beri bændum fjárhagslegt öryggisnet og hefur gefið fólki innsýn i líf bænda og þá miklu vinnu sem liggur að baki framleiðslu á mjólk og kjöti. En Teresa er hvergi nærri hætt, í sumar hefur hún nú þegar verið bókuð á fjölmarga fundi með bæði almenningi og ráðamönnum þar sem hún mun halda áfram að berjast fyrir landbúnaðinn /SS.