Beint í efni

1,7% minni mjólkurframleiðsla í Svíþjóð

21.02.2018

Samkvæmt upplýsingum LRF Mjölk, sem eru samtök sænskra afurðastöðva í mjólkuriðnaði, þá minnkaði innvigtun mjólkur í landinu um 1,7% miðað við árið 2016 sem er þó minni samdráttur en varð á milli áranna 2015 til 2016 þegar samdrátturinn nam 5%. Segir LRF Mjölk það til merkis um að þarlend mjólkurframleiðsla sé nú að ná jafnvægi á ný.

Í júní árið 2016 var reiknuð afkoma kúabænda landsins sú versta í 25 ár sem leiddi til verulegs samdráttar í greininni og hættu mörg bú rekstri. Framan af árinu 2017 var innvigtunin á niðurleið miðað við árið 2016 en seinnipart ársins snérist þetta hins vegar við og segir LRF Mjölk það til marks um að þau bú sem eftir eru í framleiðslu, séu að bæta við sig. Þá hefur launagreiðslugeta kúabúa landsins aukist undanfarið og reka sig nokkuð vel nú um stundir. Það er þó sem fyrr alltaf ákveðin óvissa með þróun afurðastöðvaverðsins og ef það lækkar frá því sem nú er, óttast LRF Mjölk að það geti haft afar slæm áhrif á þróun kúabúskapar landsins/SS.