
Björn og Hlédís stýra vinnu við mótun landbúnaðarstefnu
15.09.2020
Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur skipað verkefnisstjórn um landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Í henni sitja Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra og þingmaður, og Hlédís Sveinsdóttir, ráðgjafi og verkefnastjóri. Með henni starfa Bryndís Eiríksdóttir, sérfræðingur í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, og Sigurgeir Þorgeirsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri.
Í tengslum við vinnu samráðshóps um endurskoðun búvörusamninga lét ráðherra KPMG vinna sviðsmyndagreiningu um framtíð landbúnaðarins til ársins 2040. Þar er talið nauðsynlegt að móta heildstæða stefnu greinarinnar, landbúnaðarstefnu fyrir Ísland. Á grunni þessa hefur ráðherra ákveðið að setja vinnu við mótun stefnunnar formlega af stað.
Samvinnuverkefni bænda, neytenda og atvinnulífs
Í tilkynningu á vef atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins segir að mótun landbúnaðarstefnu sé samvinnuverkefni stjórnvalda, bænda, neytenda og atvinnulífs. Verkefnisstjórn mun efna til funda með bændum og öðrum hagaðilum í því skyni að virkja þá til þátttöku í stefnumótuninni. Fyrir milligöngu ráðuneytisins verður stofnað til samráðs við þingflokka. Samráð verður haft við fulltrúa Bændasamtaka Íslands, Samtaka atvinnulífsins, Neytendasamtakanna og Alþýðusambands Íslands og þeim gefinn kostur á að fylgjast með framvindu verksins á vinnslustigi.
Samkvæmt skipunarbréfi verkefnisstjórnarinnar skal við mótun landbúnaðarstefnu litið til eftirfarandi meginþátta:
- Með öflugum landbúnaði verði Ísland leiðandi í framleiðslu á heilnæmum landbúnaðarafurðum – sérstaklega verði hugað að fæðu- og matvælaöryggi og samkeppnishæfum rekstrarskilyrðum í sátt við umhverfi og samfélag.
- Tryggð verði byggðafesta með nýtingu tækifæra í krafti nýsköpunar og vöruþróunar sem taki mið af grænum lausnum, matarmenningu og sjálfbærni.
- Menntun, rannsóknir og þróun mótist af hæfilegri samþættingu fræðilegra viðfangsefna og ráðgjafar í þágu þeirra sem stunda landbúnað og vinnslu landbúnaðarafurða.
- Með hvötum og stuðningi verði dregið úr umhverfisáhrifum og stuðlað að verndun, endurheimt og nýtingu landvistkerfa í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun frá árinu 2016.
Gert er ráð fyrir að tillaga að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland muni liggja fyrir þann 31. mars 2021.