Beint í efni

E. Coli smit

16.07.2019

Á undanförnum vikum hafa einstaklingar greinst á Íslandi með alvarlega sýkingu af völdum E. coli bakteríu (STEC).

Nú virðist ljóst að smitið megi reka til ferðaþjónustubæjarins Efstadals II í Bláskógarbyggð. Þegar línur tóku að skýrast var strax gripið til viðeigandi ráðstafanna í góðu samstarfi við staðarhaldara. Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit Suðurlands hafa unnið hörðum höndum í málinu en aðgerðir og ráðstafanir sem gripið var til beinast að því að rjúfa mögulegar smitleiðir með því að stöðva framleiðslu á ís og samgangi við kálfa á staðnum, ásamt því að skerpa á vinnureglum og hreinlæti.

Allir aðilar sem að þessu máli hafa komið vilja ítreka að litið er á þessa sýkingahrinu af völdum E. coli mjög alvarlegum augum og hafa allir lagt sig fram um að upplýsa þetta mál og gripið til viðeigandi ráðstafana til að koma í veg fyrir frekara smit.

Fólk getur smitast af STEC með menguðum matvælum eða vatni og með beinni snertingu við dýr eða mengaðan úrgang dýra. Bakterían kemst þannig um munn og niður í meltingarveg og framleiðir eiturefni sem getur valdið blóðugum niðurgangi og í alvarlegum tilfellum nýrnabilun og blóðleysi.

Þessi atburður gefur einnig tilefni til að árétta mikilvægi almenns hreinlætis og handþvottar við meðhöndlun matvæla og eftir umgengni við dýr, sérstaklega þegar börn eiga í hlut.

 

 

 

 

Um E. Coli:

Til eru margar tegundir kólíbaktería. Þær finnast í þörmum manna og dýra og hafa flestar hlutverki að gegna í efnaskiptum þarmanna. En sumar tegundir geta myndað eiturefni (toxín) og þar með valdið alvarlegum sjúkdómum hjá mönnum. Helsta smitleiðin er með menguðum matvælum og vatni, en einnig getur beint smit manna á milli átt sér stað. Til að forðast smit er m.a. mælt með að steikja mat vel, skola grænmeti fyrir neyslu og gæta að handþvotti.

Fyrir bændur bendum við á handþvott fyrir og eftir meðhöndlun gripa, þá er gott að hafa handspritt aðgengilegt í og við vinnuaðstöðu en slíkt má fá í ýmsum útfærslum sem auðvelda notkun og aðgengi.