Beint í efni

Skipað í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga

08.02.2018

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur nú skipað í samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga. Við afgreiðslu búvörusamninganna árið 2016 var lagt upp með að skipaður yrði sjö manna samráðshópur en í tíð tveggja síðustu ríkisstjórna hefur fulltrúum fjölgað í annars vegar 12 og hins vegar 13. Hinn 30. desember sl. ákvað sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra að endurskipa í hópinn og kemur fram í frétt á vef ráðuneytisins að það sé gert til að vinna hópsins taki m.a. mið af þeim áherslum sem fram koma í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur. Elín Heiða Valsdóttir, stjórnamaður í LK, situr áfram í hópnum fyrir hönd Bændasamtaka Íslands.

Alls eiga nú átta fulltrúar sæti í hópnum og fara tveir þeirra sameiginlega með formennsku. Samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga skipa:

  • Brynhildur Pétursdóttir, formaður (Neytendasamtökin)
  • Haraldur Benediktsson, formaður (skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra)
  • Þórlindur Kjartansson (skipaður af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra)
  • Hafdís Hanna Ægisdóttir (umhverfis- og auðlindaráðuneytið)
  • Jóhanna Hreinsdóttir (Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði / Landssamtök sláturleyfishafa)
  • Halldór Árnason (Samtök atvinnulífsins)
  • Sindri Sigurgeirsson (Bændasamtök Íslands)
  • Elín Heiða Valsdóttir (Bændasamtök Íslands)

Lögð verður áhersla á að hópurinn ljúki störfum sem fyrst og eigi síðar en í lok árs 2018.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra: „Við skipan hópsins hef ég lagt ríka áherslu á að veita sjónarmiðum neytenda aukna vigt við endurskoðun búrvörusamninganna, m.a. með því að skipa fulltrúa Neytendasamtakanna sem annan formanna hópsins. Þessi fjölbreytti hópur hefur fulla burði til að ná víðtæku samkomulagi um tillögur sem geta orðið grundvöllur að  öflugum atvinnurekstri í landbúnaði og ekki síður skapað meiri sátt um uppbyggingu íslensks landbúnaðar.“