
Niðurstöður skýrsluhalds nautgriparæktarinnar í maí 2017
14.06.2017
Niðurstöður afurðaskýrsluhaldsins í nautgriparæktinni fyrir maímánuð hafa nú verið birtar á vef RML. Skýrslur bárust frá 554 búum. Reiknuð meðalnyt 24.448,5 árskúa á þessum búum eru 6.069 kg á síðustu 12 mánuðum og hafði aukist um 23 kíló frá fyrri mánuði. Meðalfjöldi árskúa á búunum sem tölum hafði verið skilað frá var 44,1. Rétt er að hafa í huga að ekki er um að ræða skil frá öllum búum sem eru skráð til þátttöku í skýrsluhaldinu.
Búið þar sem meðalnyt árskúa var mest á síðustu 12 mánuðum var hið sama og við seinustu uppgjör, bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hver árskýr þar skilaði 9.083 kg. mjólkur á tímabilinu. Annað búið í röðinni, líkt og seinast var Hraunháls í Helgafellssveit þar sem árskýrin mjólkaði að jafnaði 8.320 kg. á tímabilinu. Þriðja búið nú við lok maí var Hóll í Svarfaðardal þar sem meðalafurðir árskúnna voru 8.232 kg. á undanförnum 12 mánuðum.
Nythæsta kýrin við uppgjörið nú var Korna 150 (f. Hræsingur 98046), á Brúsastöðum í Vatnsdal, en hún skilaði á tímabilinu 13.647 kg.
Alls náðu 39 kýr að mjólka yfir 11.000 kg á síðustu 12 mánuðum. Af þeim reiknuðust 8 hafa mjólkað yfir 12.000 kg. og ein þeirra skilaði meiri mjólk en 13.000 kg. á tímabilinu.
Sjá nánar: