16. fundur stjórnar LK 2018-2019
07.02.2019
Sextándi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn fimmtudaginn 31. janúar kl. 15:00. Símafundur.
Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Pétur Diðriksson og Herdís Magna Gunnarsdóttir, ásamt Davíð Loga Jónssyni sem mætir sem varamaður fyrir Rafn Bergsson sem boðaði forföll. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.
Þetta var gert.
- Tilnefning í stjórn SAM. Stjórn LK hefur borist ósk um tilnefningu í stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) og skal hún berast fyrir 1. febrúar. Herdís Magna hefur verið þar aðalmaður frá 2018 og Pétur varamaður hennar. Þau gefa áfram kost á sér í embættin. Stjórn samþykkir og felur framkvæmdastjóra að áframsenda tilnefninguna á skrifstofu SAM.
- Innflutnings- og tollamál – samstarf.Borist hefur beiðni frá Bændasamtökum Íslands um þátttöku LK í fjármögnun á sameiginlegu kynningarátaki tengdu afnámi frystiskyldu á innfluttu hráu kjöti. Stjórn samþykkti framlag að upphæð 500.000 krónur í tölvupósti 11. janúar sl. og hefur framkvæmdastjóri tilkynnt þá ákvörðun til BÍ. Nokkrar umræður urðu um stöðu mála. Samkvæmt þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar á að leggja fram frumvarp í febrúarmánuði til að bregðast við dómi EFTA-dómstólsins. Lítið hefur verið rætt um mótvægisaðgerðir til að fyrirbyggja að búfjársjúkdómar berist til landsins. Mikilvægt er að þau mál verði skoðuð umfram það að koma á fót tryggingarsjóði sem hefði einungis það hlutverk að bæta tjón, komi upp sjúkdómar.
- Vinna við umhverfisstefnu Bændasamtaka Íslands. Framkvæmdastjóri situr í vinnuhópi um mótun umhverfisstefnu BÍ sem starfar eftir ályktun Búnaðarþings 2018. Fundaði hópurinn 15. janúar sl. og var þar m.a. farið yfir umhverfishluta stefnumótana LK til næstu 10 ára. Skal hópurinn skila stöðuskýrslu fyrir ársfund BÍ sem haldinn verður 8. mars nk. og lokadrögum fyrir Búnaðarþing 2020.
- Styrkir til aðildarfélaga fyrir árið 2018. Styrkir voru greiddir til aðildarfélaga LK 31. desember sl., í samræmi við ákvörðun stjórnar í gegnum tölvupóst. Félögum hefur fjölgað nokkuð á milli ára sem hefur áhrif á upphæð á hvern félagsmann. Var upphæðin í samræmi við fjárhagsáætlun, samtals 1.000.000 krónur.
- Atkvæðagreiðsla um kvótakerfið. Atkvæðagreiðsla meðal mjólkurframleiðenda um framtíð kvótakerfis í mjólkurframleiðslu verður haldin 11.-18. febrúar nk. Kosið verður rafrænt og hefur hver innleggjandi eitt atkvæði, óháð félagsaðild að LK eða BÍ. Sérstök kjörstjórn heldur utanum framkvæmd kosningarinnar. Kynning á því hvað þýðir fyrir komandi endurskoðun að kjósa kvótakerfið af eða áfram var birt í Bændablaðinu sem kom út í dag, 31. janúar. LK og BÍ munu framkvæma skoðanakönnun meðal félagsmanna sinna í framhaldi kosningarinnar, um afstöðu bænda til nánari útfærslna á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktarinnar. Er stjórn sammála um að mikilvægt sé að skoðanakönnunin verði sem fyrst eftir atkvæðagreiðsluna. Ákveðið að vinna áfram á næsta stjórnarfundi. Framkvæmdastjóra er falið að undirbúa.
- Önnur mál
- Næsti stjórnarfundur verður boðaður í Bændahöllinni í Reykjavík, miðvikudaginn 6. febrúar, kl. 9:30.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16:00
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda