Beint í efni

15. fundur stjórnar LK 2018-2019

28.01.2019

Fimmtándi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn þriðjudaginn 11. desember kl. 14:30. Símafundur.

Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Pétur Diðriksson, Rafn Bergsson og Borghildur Kristinsdóttir. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.

Þetta var gert.

  1. Atkvæðagreiðsla meðal mjólkurframleiðenda um kvótakerfi í mjólkurframleiðslu, framkvæmd og frekari upplýsingar til bænda – Framkvæmdastjóri kynnti endurskoðaða tillögu að spurningu fyrir atkvæðagreiðsluna, einfalda og skýra já/nei spurningu með valmöguleikum sem kveða skýrt á um hvað viðkomandi er að kjósa. Stjórn samþykkti að senda tillöguna til BÍ sem mun funda fimmtudaginn 13. desember.

Einnig var farið yfir drög að texta um sviðsmyndir, hvað það felur í sér að kjósa kvótann af/áfram. Stjórn var sammála að hafa sviðsmyndirnar nokkuð opnar en þó með þeim hætti að bændur hefðu skýra mynd af framhaldi hvorrar leiðar fyrir sig. Ekki er hægt að fara í ítarlegar útfærslur þar sem samningaviðræður eru ekki hafnar. Vakti formaður athygli á að mjög skiptar skoðanir eru meðal bænda um hvaða leiðir skal fara, því þurfa sviðsmyndirnar að vera eins skýrar og hægt er á þeim tíma sem atkvæðagreiðslan mun eiga sér stað. Verða upplýsingarnar birtar þegar nær dregur atkvæðagreiðslu sem LK hefur lagt áherslu á að muni eiga sér stað í janúarmánuði 2019. Stjórn samþykkir og felur framkvæmdastjóra að senda á stjórn BÍ.

Miklar umræður um fyrirhugaða skoðanakönnun meðal bænda. Stjórn var sammála um að spyrja m.a. um nánari útfærslu á viðskiptum með kvóta, hlutfallslega skiptingu stuðningsgreiðslna og önnur atriði sem munu gagnast í komandi endurskoðun samninganna. Pétur velti upp hvort hægt væri að nýta skoðanakönnunina til að taka púlsinn á bændum varðandi viðbrögð greinarinnar við vaxandi samkeppni frá innflutningi og stjórn tók undir það.  Vinna við skoðanakönnun mun halda áfram.

  1. Önnur mál.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 15:50.

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda