
15.410 kíló að meðaltali!
08.01.2018
Nú liggur fyrir uppgjör skýrsluhaldsins í Danmörku en þar í landi er ársuppgjörið alltaf 12 mánaða tímabil frá vetrarbyrjun til vetrarbyrjunar. Niðurstaða skýrsluhaldsins er áhugaverð en þar, líkt og hér á landi, hefur sama kúabúið verið í fyrsta sæti í fleiri ár. Það voru kýrnar hans Bjarne Hansen á kúabúi við Spjald á Jótlandi sem voru afurðamestar fjórða árið í röð og skiluðu þær að jafnaði 15.410 kílóum mjólkur. Bjarne er með 196 árskýr og nam því reiknuð heildarframleiðsla búsins rúmlega 3 milljónum kílóa á 12 mánaða tímabili.
En lítrafjöldi eða kílóamagn segir ekki alla söguna heldur snýst framleiðslan auðvitað um verðefnaframleiðsluna. Kýrnar hjá Bjarne voru einnig með mest verðefni í Danmörku og skiluðu að jafnaði 1.071 kílói verðefna, 552 kg af mjólkurfitu og 518 kg af mjólkurpróteini/SS.