
14 þúsund kýr á búi í Katar
13.03.2018
Við sögðum frá því hér í fyrra að eftir að yfirvöld í Katar voru grunuð um að fjármagna hryðjuverkastarfsemi þá lokuðu mörg nágrannalönd Katar fyrir öll viðskipti við landið. Þessar viðskiptaþvinganir gerðu eðlilega það að verkum að verulegur samdráttur varð á vöruúrvali í landinu og m.a. hurfu margar mjólkurvörur úr hillum verslana. Þetta land er hins vegar afar ríkt vegna olíuvinnslu og var tekin ákvörðun um að landið yrði að geta framleitt sína eigin mjólk og mjólkurvörur í stað þess að byggja á innflutningi og því var farið í það að kaupa kýr víða eins og hægt er að lesa nánar um hér.
Nú er framkvæmdum við hið nýja stórbú og afurðavinnslu nánast lokið og er áætlað að í apríl verði kúabúið komið með 10 þúsund kýr og er stefnan sett á 14 þúsund kýr þegar framkvæmdum lýkur. Miðað við áætlanir stjórnvalda ætti þetta eina kúabú og afurðastöð tengd því að geta haft verulega góð áhrif á framboð mjólkurvara í landinu en alls búa um 2,6 milljónir manna í Katar/SS.