Beint í efni

14. hvert kúabú í byggingaframkvæmdum.

24.11.2006

Á síðustu árum hafa orðið algjör umskipti í endurnýjun á framleiðsluaðstöðu í mjólkurframleiðslunni. Þau umskipti voru löngu tímabær, þar sem nær alger lægð ríkti í þeim efnum í meira en áratug, allt frá því að framleiðslustjórnun var komið á, fram yfir miðjan síðasta áratug. Talsvert hefur verið byggt af nýjum fjósum og einnig er mikið um breytingar á eldri byggingum. Landssamband kúabænda leitaði til tveggja aðila sem sjá um hönnun á fjósum og fékk upplýsingar um fjölda framkvæmda í ár og einnig á síðasta ári hjá öðrum aðilanum. Í ljós kemur að á þessu ári hafa byggingaframkvæmdir verið hafnar á a.m.k. 52 búum. Þá er mögulegt að á 10 búum til viðbótar sé verið í framkvæmdum.

Af þessum 52 búum eru framkvæmdir við ný fjós á 24 búum, breytingar á 22 og viðbyggingar á 6 búum. Algeng stærð á nýju fjósi í dag er 65-80 básar. Stærstu fjósin eru fyrir 130-150 kýr. Legubásafjós eru algerlega ráðandi og þá er mjaltaþjónn er líklega algengasti mjaltabúnaðarinn í nýjum fjósum. Ekki hefur verið byggt básafjós hér á landi í mörg ár, má í því sambandi benda á að notkun slíkra fjósa verður bönnuð í Noregi frá árinu 2024.