Beint í efni

14. fundur stjórnar LK 2018-2019

28.01.2019

Fjórtándi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn þriðjudaginn 4. desember kl. 9:30 í Bændahöllinni við Hagatorg, 107 Reykjavík.

Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Pétur Diðriksson, Rafn Bergsson og Borghildur Kristinsdóttir. Bjarni Ragnar Brynjólfsson, skrifstofustjóri SAM, kom sem gestur undir lið 5. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.

Þetta var gert.

 1. Afgreiðsla fundargerða. Ritað undir fundargerðir 6.-11. fundar sem áður höfðu verið samþykktar í tölvupóstum og birtar á naut.is. Óskað var eftir ítarlegri texta í fundargerðir 12. og 13. fundar stjórnar og afgreiðslu þeirra frestað.
 2. Stefnumótun í nautakjöts- og mjólkurframleiðslu 2018-2028. Lokaafgreiðsla. Í kjölfar haustfunda LK var ákveðið að tala um menntastofnanir og ráðgjafafyrirtæki í stað ákveðinna aðila, í þeim tilgangi að hafa nálgunina almennari. Einnig var bætt við aðgerð undir kaflann um umhverfismál, nánar tiltekið plastnotkun: Unninn verði leiðarvísir um notkun, umgengni og frágang á plasti.” Breytingar voru samþykktar af stjórn og verða stefnumótanirnar birtar á naut.is í kjölfar fundar. Einnig verður kynning á þeim í Bændablaðinu sem kemur út 13. desember nk.
 3. Reglugerðir búvörusamninga. Framkvæmdastjóri fór yfir þær tillögur sem samþykktar voru á stjórnarfundi LK 20. nóvember samhliða nýjum breytingartillögum frá vinnuhópi sem fer með reglugerðir búvörusamninga. Gerð er tillaga að óbreyttu greiðslumarki árið 2019 eða 145 milljón lítrar. Telur stjórn LK það eðlilegt og í samræmi við ályktun á stjórnarfundi 30. maí sl.: „[…] Komi til þess að endurskoða forsendur ákvarðana um greiðslumark þarf að greina áhrif þess á heildartekjur til bænda og hvað mismunandi sviðsmyndir þýða fyrir bændur og iðnaðinn. Mikilvægt er að ef ráðist verði í slíkar aðgerðir verði ákvörðun um slíkt kynnt vel fyrir bændum og í góðum tíma. Telur stjórn LK varhugavert að miða greiðslumark alfarið við próteinsölu og leggur þunga áherslu á mikilvægi þess að innanlandsþörf á mjólkurvörum, bæði á prótein- og fitugrunni, sé sinnt með íslenskri framleiðslu hverju sinni.”

Greidd voru atkvæði innan stjórnar um hvort framleiðsluskyldan ætti að vera í 95% eða færð upp í 100%. Niðurstaðan var sú að gera tillögu að því að halda henni í 95%.

 1. Bann á innflutningi ófrosins kjöts og ógerilsneyddra mjólkurafurða og eggja. Framkvæmdastjóri reifar stöðu mála en hún hefur starfað náið með BÍ í kynningarmálum vegna hugsanlegs afnáms hamla á innflutningi matvæla (frystiskyldan). Hefur hún ásamt fulltrúum BÍ fundað með aðilum víða í samfélaginu og hennar mat að aukin vitund sé að verða um hættur sýklalyfjaónæmis. Minni vitund er um þá hættu sem innflutningur á ófrosnu kjöti hefur í för með sér fyrir búfjárstofna landsins og lítið hefur bólað á undirbúningi fyrirbyggjandi aðgerða í þeim málum hjá stjórnvöldum. Hefur komið fram að stefnt er á að leggja fram frumvarp um málið í febrúar 2019 en óvíst er hvað slíkt frumvarp felur í sér þar sem stjórnvöld eru enn að funda um málið við ESB samkvæmt heimildum LK. Stjórn var sammála um að hér sé um eitt af stærri hagsmunamálum íslensks landbúnaðar seinni ára að ræða og mikilvægt að sem flestir komi að borðinu.

Miklar umræður sköpuðust um aukinn innflutning síðastliðin ár, tollasamning við ESB og samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar. Ljóst er að þessi mál þarf að taka inní vinnuna framundan við endurskoðun búvörusamninga.

 1. Staða og horfur í mjólkurframleiðslu. Farið var yfir söluspá SAM fyrir árið 2019. Söluspá SAM miðað við þróun síðustu 24 mánaða og söluspá söludeildar Mjólkursamsölunnar eru 146,2 og 146,9 millj. lítra – áður en tekið er tillit til fitusparnaðar við breytingu í framleiðslu á Kálfadufti. Væntur sparnaður fitu með breytingum í framleiðslu á kálfadufti er allt að 2,3 millj. lítra og söluspá Mjólkursamsölunnar að teknu tilliti til breytingarinnar er 144,6 millj. lítra. Tillaga að greiðslumarki 2019, sem send var á Búnaðarstofu, hljómar uppá 145 milljón lítra, eins og kemur fram undir lið 3.

Einnig var farið yfir framleiðsluspá ársins 2019 en gert er ráð fyrir samdrætti í framleiðslunni á næsta ári. Mjólkurkúm hefur fækkað og eru farganir á tímabilinu jan-okt 2018 9,5% fleiri en árið 2017. Fyrstu sæðingum fækkar áfram en áhrif fækkandi sæðinga á árið 2019 fara minnkandi þar sem sæðingar í nóvember 2018 skila væntum burðum í september 2019 – sem aftur skila mjólkurframleiðslu á tímabilinu frá september 2019 til ágúst 2020.  Fituinnihald mjólkur er óvenju hátt það sem af er árs 2018. Gerir spálíkan SAM ráð fyrir 146,4 milljón lítra framleiðslu árið 2019, eða sem nemur 1,1% umfram greiðslumark. Birgðarstaða er með ágætum.

 1. Staða á nautakjötsmarkaði. SS og KS hafa lækkað verð til bænda undanfarnar vikur en verð til bænda hefur farið lækkandi á þessu ári. Kostnaðarhækkanir virðast fyrst og fremst lenda á herðum bænda í stað þess að endurspeglast í hagræðingu eða öðrum aðgerðum innan afurðastöðva eða söluaðila. Gera má ráð fyrir auknum innflutningi á nautakjöti næstu árin með tilheyrandi áhrifum á verð til íslenskra bænda. Má gera ráð fyrir að framleiðslukostnaður á íslensku nautakjöti sé nokkuð hærri en víða annars staðar þar sem annað launaumhverfi er og kröfur ólíkar, t.d. varðandi lyfjanotkun. Mikilvægt er að ráðast í aðgerðir til að nautakjötsframleiðsla á Íslandi vaxi og dafni, enda mikið búið að fjárfesta í framleiðslunni undanfarið, m.a. í gegnum búvörusamninga og einangrunarstöðina á Stóra-Ármóti. Stjórn sammála um að það vanti nokkuð uppá gagnagrunn um nautakjötsframleiðsluna svo hægt sé að greina hvar má gera betur. Nokkuð rætt um hlutverk vinnuhóps sem ákveðið var að koma á fót eftir fund framkvæmdastjóra LK með fulltrúum RML og Nautís 2. nóvember sl. (sjá fundargerð 12. fundar stjórnar LK). Formaður kynnti tillögu um starf sem fæli í sér utanumhald og greiningar á íslenskri nautakjötsframleiðslu. Framkvæmdastjóra falið að ræða við Markaðsráð kindakjöts um tækifæri sem gætu falist í slíku starfi. Gera þarf kostnaðaráætlun og verklýsingu áður en málið verður unnið áfram.
 2. Ályktun frá félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi. Landssamband kúabænda fékk senda eftirfarandi ályktun frá félagsráði Félags kúabænda á Suðurlandi:

Samþykkt á félagsráðsfundi 22. nóvember 2018

Félagsráð Félags kúabænda á Suðurlandi hvetur Landssamband kúabænda til að endurskoða reglur vegna álagsgreiðslna í nautakjötsframleiðslu þannig að ungir gripir sem náð hafa ákveðinni þyngd (t.d. 12 -14 mánaða sem vegur 200-220kg) falli undir greiðslurnar líka. Á móti mætti lækka efri mörk í aldri. Einnig mætti skoða hvort sömu þyngdarmörk eigi að gilda fyrir geldinga og kvígur og gilda fyrir graðneyti.

Miklar umræður um kjötframleiðsluna og þá vöntun sem er á samtali milli framleiðenda og markaðarins. Fara þarf fram greining á fjölda gripa í hverjum þyngdarflokki og gæðaflokki og aldri. Stjórn telur rétt að taka málið fyrir í endurskoðun reglugerðar á næsta ári.

 1. Erfðamengisúrval, staða á fjármögnun doktorsnáms. Boðað hefur verið til fundar með fulltrúum MS og Auðhumlu um fjármögnun doktorsnáms Egils Gautasonar um erfðamengisúrval í íslenskri nautgriparækt, fimmtudaginn 6. desember. Í kjölfarið verður gengið frá skriflegum samningi.
 2. Greinargerð RHA um viðskipti með greiðslumark. Formaður fór yfir greinargerð Rannsóknarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri (RHA) um tillögur um leiðir vegna sölu og kaupa á greiðslumarki mjólkur, sem unnin var fyrir LK og BÍ. Var ráðist í þá vinnu til að undirbúa framhaldið fari það svo að bændur kjósi að halda áfram í kvóta í mjólkurframleiðslu. Niðurstaða RHA er sú að vænlegast sé að endurvekja kvótamarkað sem Matvælastofnun héldi utanum, líkt og þann sem starfræktur var frá 2010-2016. „Hann felst í frjálsri verðlagningu sem ræðst af framboði og eftirspurn. Hins vegar er gert ráð fyrir ákveðnu þaki á greiðslumarki til hvers og eins. Þessi leið tekur tillit til byggðastefnu þannig að mjólkurframleiðslan safnist ekki enn frekar á örfá svæði á landinu.” Er í greinargerðinni einnig bent á að búast megi við því að það taki nokkur ár fyrir kvótamarkaðinn að komast í jafnvægi eftir það frost sem hefur verið á viðskiptum undanfarið.

Stjórnarmenn hefðu viljað sjá frekari samanburð á hugsanlegum áhrifum þess að fara þær mismunandi leiðir sem kynntar eru, m.a. með tölulegum samanburði. Margt í greinargerðinni styður þó mjög við þær áherslur sem hafa verið til skoðunar innan LK. Þar má nefna ályktun af aðalfundi LK 2018: „Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Selfossi 6.- 7. apríl 2018 ályktar að halda skuli í framleiðslustýringu í formi greiðslumarks í mjólkurframleiðslu. Hámark skuli sett á verð greiðslumarks og viðskipti með greiðslumark skuli fara fram í gegnum opinberan aðila. Fundurinn beinir því til stjórnar að greina hvaða leiðir séu skilvirkastar í þeim efnum.” Stjórn lagði áherslu á að bændum gæfist tækifæri að kynna sér vinnuna frekar. Framkvæmdastjóra falið að óska eftir opinberri kynningu á greinargerðinni frá höfundum þar sem fólki gefst tækifæri að spyrja útí niðurstöður.

 1. Endurskoðun búvörusamninga og atkvæðagreiðsla. Miklar umræður um undirbúning atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda um framtíð kvótakerfis í mjólkurframleiðslu en BÍ hefur óskað eftir tillögu að orðalagi spurningar frá LK. Var stjórn sammála að spurningin þyrfti að vera skýr já/nei spurning og eins hvað fælist í hvorum valkosti fyrir sig. Mikilvægt er að bændur hafi þær upplýsingar sem þarf til að geta tekið upplýsta ákvörðun um hvernig þeir kjósa. Framkvæmdastjóri kynnti drög að texta þar sem mismunandi sviðsmyndum var lýst, þ.e. hvað það þýðir að kjósa kvótakerfið af og hvað það þýðir að halda í kvótakerfið. Þessar upplýsingar þurfa að vera aðgengilegar tímanlega áður en atkvæðagreiðsla á sér stað. Miklar umræður um áherslur LK við endurskoðun samnings og framkvæmdastjóra falið að vinna drögin áfram. Samþykkt var að ráðast í skoðanakönnun meðal bænda varðandi nánari útlistingu á einstaka atriðum samningsins. Formanni og framkvæmdastjóra falið að ræða við BÍ um framkvæmd.
 2. Önnur mál 
 • Framkvæmdastjóra falið að gera glærur af haustfundum aðgengilegar á naut.is.
 • Stefnt er á símafund stjórnar 10. desember.

Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 16:30

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda