13. fundur stjórnar LK 2017-2018
02.05.2018
Þrettándi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2017-2018, var haldinn í Bændahöllinni, Hagatorgi 107 Reykjavík, þriðjudaginn 27. mars kl.10.15.
Á fundinn mættu Arnar Árnason formaður, Pétur Diðriksson, Elín Heiða Valsdóttir, Herdís Magna Gunnarsdóttir og Bessi Freyr Vésteinsson. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður setti fund og svo var gengið til dagskrár.
Þetta var gert:
- Afgreiðsla fundargerða: Skrifað undir áður samþykktar fundargerðir í gegnum tölvupóst og eru komnar til birtingar á naut.is. Fundargerð 12. fundar stjórnar samþykkt og undirrituð og mun birtast á naut.is í framhaldi fundar.
- Stjórnartillögur á aðalfund. Stjórn fór yfir tillögur sem lagðar verða fram á aðalfundi samtakanna 6.-7. apríl nk. Ljóst er að stefnumótunarvinnan verður í brennidepli ásamt atkvæðagreiðslu um framtíð kvótakerfisins sem áætluð er á fyrrihluta árs 2019. Einnig eru viðbrögð við niðurstöðu EFTA-dómstólsins í hráakjötsmálinu svokallaða og tollamál áberandi. Miklar umræður um mismun í sölu á fitu- og próteingrunni og þær áskoranir sem því fylgja.
- Stefnumótun LK í mjólkurframleiðslu. Stjórn fór yfir drög að stefnumótun í mjólkurframleiðslu. Miklar umræður um eftirfylgni og samvinnu við aðrar stofnanir og aðila svo stefnan nái fram að ganga. Framleiðslustýringarkerfi er ekki hluti af stefnumótuninni þar sem ákvörðun um framtíð þess hvílir í höndum mjólkurframleiðenda í komandi atkvæðagreiðslu og tólin sem unnið er með hverju sinni eiga ekki að hafa áhrif á framtíðarmarkmið greinarinnar. Því er mikilvægt að fyrir atkvæðagreiðsluna liggi fyrir greinargóð gögn fyrir bændur um kosti og galla mismunandi kerfa miðað við þá framtíðarsýn sem lögð verður fram á aðalfundi í formi stefnumótunarinnar. Stjórn samþykkir drög og verða þau lögð fyrir aðalfund samtakanna 6.-7. apríl.
- Stefnumörkun LK í kjötframleiðslu. Stjórn fór yfir drög að stefnumótun í nautakjötsframleiðslu. Mikið er um nýjungar í drögunum og er þar lögð mikil áhersla á aukið virði afurða, ráðgjöf og aukið aðgengi að upplýsingum um framleiðslu. Stjórn samþykkir drög og verða þau lögð fyrir aðalfund samtakanna 6.-7. apríl.
- Undirbúningur aðalfundar: Framkvæmdastjóri hefur rætt við Inga Björn Árnason, Marbæli, og Borghildi Kristinsdóttur, Skarði, um að taka að sér fundarstjórn aðalfundar og Runólf Sigursveinsson sem fundarritara. Baldur Helgi Benjamínsson verður skrifstofustjóri fundarins. Landbúnaðarráðherra mun ávarpa fundinn kl.16.30, þegar fundur kemur aftur saman eftir fagþing.
Framkvæmdastjóri kynnir tillögu að uppröðun í starfsnefndir með það fyrir augum að í hverri og einni sitji sem breiðastur hópur bænda, með tilliti til búsetu, aldurs, kyns og reynslu.
Aðalfundur LK verður pappírslaus í ár en fyrsta skref í þá átt var tekin á aðalfundi 2017 þegar einungis voru útprentuð gögn fyrir þá sem sérstaklega óskuðu eftir því. Í ár munu fulltrúar vera hvattir til að hafa með sér fartölvur og vinna aðalfundar verður rafræn.
Árshátíðarnefnd er skipuð Þórunni í Bryðjuholti, Magnúsi í Pétursey, Anne í Smjördölum, Öddu á Herjólfsstöðum og Karel í Seli. Jötunn mun bjóða fulltrúum aðalfundar LK til sín á föstudagskvöldinu. Í undirbúningi er skemmtiferð á laugardeginum og stefnt á að auglýsing verði komin út strax eftir páska. Veislustjóri og skemmtiatriði eru staðfest.
- Önnur mál
- Ársreikningur og fjárhagsáætlun ársins 2018 verða tekin fyrir á næsta stjórnarfundi.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl.17.15
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda