Beint í efni

12.500 Lely mjaltaþjónar starfandi

06.09.2011

Lely er um þessar mundir að fagna því að hafa sett upp 12.500 Lely mjaltaþjóna í heiminum á síðustu 20 árum og til þess að fagna þessum áfanga hefur Lely sett á fót samkeppni meðal bænda sem eiga Lely mjaltaþjóna. Að sögn Sverris Geirmundssonar hjá VB landbúnaði, umboðsaðila Lely á Íslandi, fer samkeppnin þannig fram að þátttakendur búa til myndband um mjaltaþjóninn og áhrif hans á mjaltirnar og lífið á bænum. Besta myndbandið er svo valið og fær sigurvegarinn að launum inneign hjá Lely upp á heilar 12.500 Evrur, sem nýtist sem greiðsla eða innáborgun inn á nýtt Lely tæki sem tengist mjöltum eða fjóstækni.

 

Nánar um keppnina:
Það þarf að setja myndbandið á vefinn „You Tube“ og senda það einnig til Sverris hjá VB Landbúnaði (sverrir@vbl.is) fyrir 1. nóvember nk. Myndbandinu þarf að fylgja nafn og heimilisfang sendanda. Öll myndböndin fara svo fyrir dómnefnd sem skipuð er starfsfólki markaðsdeildar Lely í Hollandi undir forsæti Alexanders van der Lely, forstjóra „Lely Group“.

 

Besta myndbandið verður síðan til sýnis á vef Lely, www.lely.com frá 15. nóvember. Haft verður samband við sigurvegarann fyrir 22. nóvember og honum tilkynntur sigurinn. Eins og fyrr sagði fær hann 12.500- Evrur sem inneign hjá Lely að launum (sem lætur nærri að vera kr. 2. 050.000- m/v sölugengi Evru kr.164)/SS – fréttatilkynning.