Beint í efni

12 milljarða sekt Valio í Finnlandi!

14.01.2013

Finnska samkeppniseftirlitið hefur sektað Valio, samvinnufélag finnskra kúabænda, um heila 12 milljarða íslenskra króna fyrir brot á samkeppnislögum. Þessi risasekt kom til vegna þess að Valio hefur selt mjólk til neytenda undir framleiðslukostnaðarverði til þess að halda öðrum afurðastöðvum frá markaðinum samkvæmt dómi samkeppniseftirlitsins.

 

Harðbannað er að selja vörur undir framleiðslukostnaðarverði sé fyrirtæki með sterka stöðu á markaðinum, enda heldur það öðrum frá. Á hinum finnska markaði hafa Arla og Valio slegist nokkuð hart um viðskiptavinina, en sem kunnugt er eru bæði félögin í eigu bænda.

 

Upphæðin er verulega mikið hærri en margir bjuggust við en skýringin felst í því að þetta er í annað sinn sem Valio er dæmt fyrir brot á samkeppnislögum, en árið 1998 var félagið einnig dæmt fyrir slík brot. Valio hefur hafnað því að hafa gert nokkuð rangt. Félagið hefur haldið því fram að það hafi einungis selt vörur sínar með mismunandi framlegð eftir því hvar hagnaðarvon var. Því hafi drykkjarmjólk verið seld með lágri eða engri álagningu, en ostar og aðrar meira unnar vörur með meiri álagningu/SS.