12. fundur stjórnar LK 2018-2019
28.01.2019
Tólfti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn mánudaginn 5. nóvember kl. 20:30. Símafundur.
Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Pétur Diðriksson, Rafn Bergsson og Borghildur Kristinsdóttir. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.
Þetta var gert.
- Afgreiðsla fundargerðar. Fundargerð 11. fundar stjórnar samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
- Haustfundir LK 2018. Fundum lauk föstudaginn 26. október. Vel var mætt á fundina, þeir voru 14 í heildina og má ætla að um 380 manns hafi mætt á þessa 14 fundi. Nokkuð góður andi á fundunum og bændur voru helst að velta fyrir sér viðskiptum með greiðslumark og atkvæðagreiðslu um framtíð kvótakerfisins. Einnig nokkuð rætt um tollamál og hráakjötsmálið. Tillögur frá SAM um aðgerðir vegna efnahallans voru kynntar, þ.á.m. hvort ætti að skoða viðmiðanir við ákvarðanatöku um heildargreiðslumark. Skiptar skoðanir voru meðal bænda en almennt voru flestir á þeirri skoðun að áhersla ætti að vera á að anna innanlandsmarkaði og frekar ætti að líta til annarra leiða til að takast á við efnahallann, t.a.m. að nýta efnainnihald mjólkurinnar betur líkt og iðnaðurinn hefur verið að vinna að undanfarið. Í umræðum um atkvæðagreiðslu um kvótakerfið veltu menn fyrir sér kjörgengi og var það kynnt á fundunum að allir mjólkurframleiðendur munu þar hafa atkvæðarétt, óháð félagsaðild að LK eða BÍ. Líklega verði farin sú leið að hver framleiðandi hafi eitt atkvæði en nánari útfærslur verða kynntar betur þegar nær dregur. Miklar umræður um þá stöðu sem komin er upp í viðskiptum með greiðslumark en markaðurinn er svo til næst frosinn. Óeðlilega mikil eftirspurn er á meðan framboð er nánast ekkert. Á fundunum benti LK á að þetta væri ekki staða sem kæmi á óvart heldur hefði þetta verið nokkuð fyrirsjáanlegt þar sem atkvæðagreiðslan var skrifuð inní búvörusamninginn í lokin og þá án þess að gera aðrar breytingar á samningnum. Það er afar mikilvægt að endurskoðun samnings nautgriparæktarinnar muni ganga hratt og örugglega fyrir sig því fari svo að mjólkurframleiðendur kjósi að halda áfram í kvótann er mikilvægast að koma viðskiptum aftur af stað.
- Stefnumótunarvinna LK. Stefnumótanir í mjólkur- og kjötframleiðslu voru samþykktar á aðalfundi LK 6.-7. apríl 2018. Stjórn LK tók þá ákvörðun að kynna vinnuna á haustfundum LK og gefa bændum tækifæri til að koma með athugasemdir og tillögur. Tvær tillögur komu fram um breytingar á stefnumótun LK á haustfundum. Annars vegar hvort bæta ætti við punkti um plast og hins vegar hvort tala eigi frekar um menntastofnanir og ráðgjafaþjónustu í stað þess að vísa í einstaka stofnanir og fyrirtæki. Framkvæmdastjóra falið að gera tillögu að umræddum viðbótum og breytingum og verður tekið fyrir á stjórnarfundi í byrjun desember.
- Landbúnaðarsýning 2018. Stjórn veitti heimild í tölvupóstum til vinnslu á litabókum uppúr samfélagsmiðlaverkefni sem LK vann haustið 2017. Bækurnar voru prentaðar í 1.000 eintökum og gengu rúmlega 800 út á sýningunni við afar góðar móttökur. Kostnaður við uppsetningu og prentun er samtals kr. 394.312 (með VSK). Mjólkursamsalan hefur samþykkt að styrkja verkefnið um kr. 150.000, sem nemur kostnaði við umbrot bókarinnar. Í framhaldinu hefur nú þegar verið haft samband við LK í tvígang til að fá eintök af litabókinni í tengslum við fræðsluverkefni fyrir börn. Einnig var farið í samstarf við Norðlenska og boðið uppá grillað íslenskt nautakjöt á sýningunni og stóðu formaður og framkvæmdastjóri LK vaktina síðdegis á laugardeginum 13. október. Kláruðust 50 kg af nautakjöti á um 90 mínútum. Var sýningin öll sú glæsilegasta og afar vel sótt en áætlað er að um 80.000-100.000 manns hafi komið þar yfir helgina.
- Fundur með umhverfisráðherra. Framkvæmdastjóri sat fund með umhverfisráðherra föstudaginn 26. október til að fylgja eftir ályktun af aðalfundi LK: Kolefnisspor nautgriparæktarinnar. Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Selfossi 6.-7. apríl 2018, beinir því til stjórnar LK að gerð verði úttekt á losun gróðurhúsalofttegunda í íslenskri nautgriparækt í samstarfi við stjórnvöld. Einnig verði unnin aðgerðaáætlun með það að markmiði að jafna kolefnisspor greinarinnar.
Greinargerð: Aðalfundur Landssambands kúabænda, haldinn á Akureyri 24.-25. mars 2017, beindi því til stjórnar LK að skoða ávinning þess og kostnað við að láta meta kolefnisspor íslensks kúabúskapar til samanburðar við kolefnisspor innfluttra afurða. Stjórn LK hefur fengið tilboð í skýrslugerð frá fyrirtæki sem hefur m.a. unnið sambærilega vinnu fyrir Landssamtök sauðfjárbænda og garðyrkjubændur. Framkvæmd mats á losun gróðurhúsalofttegunda í nautgriparækt er í takt við markmið endurskoðunar búvörusamninga varðandi loftslags- og umhverfismál sem meirihluti atvinnuveganefndar lagði til í nefndaráliti sínu á 145. löggjafarþingi 2015–2016 (Þingskjal 1591-680. mál). „Meirihlutinn leggur til að við endurskoðun samninga 2019 liggi fyrir heildaráætlun um hlutverk landbúnaðarins í aðgerðum sem snerta loftslags- og umhverfismál. Skerpa þarf á þeim atriðum í samningunum sem snúa að umhverfismálum og setja fram tölusett markmið og áfanga í þeim verkefnum sem bændur og ríkisvaldið hyggjast vinna sameiginlega að á næstu árum. Meirihlutinn er sammála um mikilvægi þessara verkefna og telur að þau þurfi að setja sterkan svip á endurskoðunina 2019.” Hér er m.a. átt við: vegvísi um minni losun gróðurhúsalofttegunda í landbúnaði.
Framkvæmd mats á kolefnisspori nautgriparæktarinnar er einnig í takt við markmið Parísarsamkomulagsins sem íslensk stjórnvöld rituðu undir í apríl 2016 og því eðlilegt að stjórnvöld komi að þeirri vinnu að greina kolefnisspor greinarinnar.
Rætt var um annað verkefni sem unnið er að á vegum RML að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins en þar er verið að greina kolefnislosun frá 5 búum, þar af 3 kúabúum, auk tillagna um hvað þar megi gera til að draga úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda. Þeirri greiningu er lokið og er skýrslan væntanleg í þessari viku. Mun RML að öllum líkindum halda áfram með þetta verkefni og leiða vinnu í samstarfi við BÍ og búgreinafélögin um vegvísi fyrir landbúnaðinn í átt til minni losunar.
Ráðuneytið var ekki tilbúið að koma fjárhagslega að vinnu við kolefnisskýrslu fyrir nautgriparæktina sérstaklega og er m.a. vísað í að ekki hafi slíkar úttektir fyrir aðrar greinar verið sérstaklega styrktar. Mikill áhugi var fyrir hugmynd um reiknivél fyrir hvert býli til að reikna út sína kolefnislosun og mögulega hægt að líta á sem hluta af grænu bókhaldi, sem gæti tengst búvörusamningum.
Stjórn LK er sammála um að sjá hvað kemur útúr verkefni RML áður en frekari skref eru tekin í gerð skýrslu um kolefnislosun í íslenskri nautgriparækt.
- Umsögn LK við við tillögu að þingsályktun um uppsögn tollasamnings Íslands og ESB. Framkvæmdastjóri kynnir drög að umsögn um tillögu til þingsályktunar um uppsögn tollasamnings um landbúnaðarvörur við Evrópusambandið, 22. mál. Í umsögn LK er lögð áhersla á endurskoðun samningsins í stað uppsagnar. Er það í samræmi við ályktun aðalfundar samtakanna sem haldinn var 6.-7. apríl sl. en þar er þess krafist að „íslensk stjórnvöld fari fram á endurskoðun tollasamnings sem gerður var á milli Íslands og Evrópusambandsins 17. september 2015 og tekur gildi 1. maí 2018, en algjör forsendubrestur hefur orðið í útflutningsmöguleikum á íslenskum mjólkurvörum við útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu (Brexit).” Stjórn samþykkir umsögn og felur framkvæmdastjóra að senda áfram. Umsögn LK má lesa með því að smella hér: https://www.althingi.is/altext/erindi/149/149-448.pdf
- Fundur með samráðshópi um endurskoðun búvörusaminga. Framkvæmdastjóri fundaði með samráðshópi um endurskoðun búvörusamninga 16. október sl. vegna nautakjötsframleiðslu á Íslandi. Á fundinum var farið yfir þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir, m.a. vegna tollaumhverfisins og síaukins innflutnings. Einnig var mikið rætt um áhrif þess á íslenskan landbúnað verði frystiskyldan afnumin og mikilvægi þess að mótvægisaðgerðir sem ráðist verði í snúi ekki einungis að auknum sýnatökum, tryggingum fyrir áföllum eða kampýlóbakter- og salmonellusmitum, heldur verði einnig tekið tillit til samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar á fjárhagslegum grundvelli. Einungis um helmingur nefndarmanna sat fundinn og lýsti framkvæmdastjóri yfir vonbrigðum með mætinguna um leið og boðið var uppá að hitta hinn helming hópsins síðar ef vilji væri fyrir því. Ekki hafa borist óskir um slíkt.
- Endurskoðun búvörusamninga og næstu skref. Formaður fer yfir stöðu mála. Samninganefnd vinnur enn að endurskoðun sauðfjársamnings. Ekki er búið að skipa samninganefnd ríkisins fyrir nautgriparæktarsamninginn. Ljóst er að endurskoðun samnings um starfssskilyrði nautgriparæktarinnar er nokkuð háð niðurstöðu atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda um framtíð kvótakerfis í mjólkurframleiðslu. Áherslur LK í komandi vinnu eru m.a. mat á skilvirkri leið vegna greiðslumarksviðskipta, endurskoðun forgangshópa á kaupum á greiðslumarki og skýrari rammi um fjárfestingarstuðning. Auk þess leggur stjórn mikla áherslu á að tollamál verði hluti af samtalinu við stjórnvöld. Ef ekki verður horfið frá fyrirætlunum um verulega minnkandi tollvernd fyrir íslenskar landbúnaðarafurðir þurfa að koma til mótvægisaðgerðir af hálfu stjórnvalda, hvort sem er í formi beins stuðnings eða mismunandi aðgerða til að styrkja stöðu íslensks landbúnaðar. Eins eru mótvægisaðgerðir vegna minnkandi tollverndar stór þáttur í því að við höldum fjölbreytileika í stærð og dreifingu búa, það er mikilvægt að minni einingar geti rekið sig áfram líkt og þær stærri. Fyrirkomulag á úrvinnslu mjólkur spilar þar einnig stóran þátt. Mikilvægt að viðhalda ákvæðum búvörulaga sem veita heimild til verkaskiptingar og samstarfs. Einnig rætt um aðrar leiðir til að styrkja og efla íslenskan landbúnað á borð við upprunamerkingar, upplýsingagjöf um lyfjanotkun, lög um opinber innkaup o.fl.
- Stefnumótunarvinna hjá Nautís. Framkvæmdastjóri sat fund með fulltrúum RML og Nautís föstudaginn 2. nóvember. Einangrunarstöðin að Stóra-Ármóti var heimsótt og fundað að því loknu í húsakynnum BSSL. Farið yfir nýjungar í afurðaskýrsluhaldi nautgriparæktarinnar hjá RML og stefnumótun LK í nautakjötsframleiðslu. Niðurstaða fundarins var sú að RML mun óska eftir tilnefningum frá LK og Nautís í vinnuhóp til að móta aðgerðaráætlun til næstu ára með það að markmiði að koma greininni á þann stað sem stefnt er að.
- Önnur mál.
- Greiðsla af framleiðslujafnvægislið samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar vegna erfðamengisúrvals komin til LK.
- Framkvæmdastjóri fjárfesti í nýjum síma, kostnaður kr. 99.990.
- Næsti fundur áætlaður í byrjun desember í Bændahöllinni í Reykjavík.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 22:35.
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda