110.000 manns sáu kýrnar fara út!
06.05.2011
Undanfarin ár hefur skapast sú hefð hjá samtökum lífrænna bænda í Danmörku, að bjóða gestum og gangandi í heimsókn þegar kúnum er hleypt út að vori. Á pálmasunnudag, 17. apríl sl. voru 65 þarlend kúabú með opið hús af þessu tilefni en þann dag kl. 12 á hádegi var kúnum hleypt út eftir innistöðu. Hvorki fleiri né færri en 110.000 manns komu í heimsókn á búin til að verða vitni að því þegar kýrnar slettu úr klaufunum. Það er 30.000 fleiri en á síðasta ári og voru skipuleggjendur viðburðarins afar ánægðir með að vera orðnir stærri en Roskilde tónlistarhátíðin! Bændurnir sem buðu í heimsókn voru ekki síður ánægðir með viðtökurnar, nærri 1.700 manns komu á hvert bú að jafnaði.
Ásamt samtökum lífrænna bænda komu afurðastövarnar Naturmælk, Thise, Osted, Arla, Them, Osteriet i Hinge og Øllingegaard einnig að þessum skemmtilega viðburði.