100 þúsund heimsóknir á naut.is árið 2008
07.01.2009
Heimsóknir inn á vef Landssambands kúabænda voru tæplega hundrað þúsund á síðasta ári, nánar tiltekið 99.993 samkvæmt vefmælingu Modernus. Það þýðir að jafnaði 273 innlit á dag. Flettingar voru tæplega 318 þúsund talsins. Mest var aðsóknin 28. janúar, 768 innlit eru skráð þann dag. Þá voru settar fjórar fréttir inn á vefinn; samanburður á verði drykkjarmjólkur á Íslandi, Noregi og Danmörku, þar sem í ljós kom að neyslumjólk er langódýrust hér á landi, munurinn hefur síðan aukist stórkostlega; vangaveltur um hvað um væri að vera á áburðarmarkaði, en þá hafði dregist lengur en dæmi voru um að birta verðskrár á áburði;
verðskrár og efnainnihald kjarnfóðurs var uppfært, þá hafði kjarnfóðurverð nýlega hækkað um 4-7%; að lokum var birt tilkynning að meðalverð á greiðslumarki væri 319 kr/l og að viðskipti á þeim markaði hefðu oft verið líflegri. Verðið í dag er ca. 50 kr lægra og viðskipti sáralítil. 27. mars var einnig mjög mikil aðsókn, 722 innlit en þann dag var tilkynnt að mjólkurverð til bænda hefði hækkað um 14,04 kr/l í kjölfar einhverra stórkostlegustu aðfangahækkana Íslandssögunnar.
Það hefur án efa sín áhrif á aðsóknina að flestar þessar fréttir, auk fjölmargra annarra voru teknar upp af helstu fréttaveitum landsins, s.s. mbl.is og visir.is með tilvísun í vef LK.
Aðsókn var minnst 5. júlí, 71 heimsókn, sem kemur ekki á óvart þar sem bændur hafa annað að gera yfir hábjargræðistímann en að sitja við tölvuskjá.
Í heild voru settar inn 166 fréttir og tilkynningar árið 2008, auk nokkurra greina og fundargerða. Kýrhausinn var á köflum mjög líflegur, stofnaðir voru 67 spjallþæðir og innlegg voru um 300 talsins. Innleggið sem sett var inn í morgun (7. janúar) var númer 1.500 frá stofnun núverandi kerfis árið 2002. Hópurinn sem tjáir sig er þó tiltölulega þröngur og er ástæða til að hvetja fleiri til að skrifa það sem þeim liggur á hjarta. Það sem helst vekur viðbrögð eru kjaramál, ræktunarstarfið, innflutningur á nýju mjólkurkúakyni (hljómar kunnuglega?) og nú síðustu vikur hafa bændur mikið velt fyrir sér hvað hugsanleg aðild að evrópusambandinu kann að hafa í för með sér.