Beint í efni

100 naut drápust

03.06.2016

Aðfararnótt gærdagsins reyndist skelfileg fyrir sænskan kúabónda í Tranås í Smálöndunum en þá kviknaði í fjósinu á bænum. Upp komst um brunann klukkan tvö um nóttina og var slökkvilið kallað strax til. Þegar það kom á staðinn, 10-12 mínútum síðar, var fjósið allt í ljósum logum og hafði eldurinn einnig náð yfir í nærliggjandi byggingu.
  
Ekkert varð ráðið við brunann á fjósinu með þeim skelfilegu afleiðingum að um 100 eldisnaut brunnu inni. Með miklu snarræði tókst slökkviliðinu að koma í veg fyrir að aðrar byggingar á bænum brynnu einnig. Eins og sést af meðfylgjandi myndskeiði frá vefsíðunni Tranastidning þá var fjósið steinsteypt en þakið gert með hefðbundnu trévirki. Nánar má sjá myndir frá brunanum með því að smella á hlekkinn hér/SS.