Beint í efni

10. heimsráðstefnan um búfjárkynbætur

19.08.2014

Þessa dagana stendur yfir í borginni Vancouver í Kanada 10. heimsráðstefnan um búfjárkynbætur (World Congress on Genetics Applied to Livestock Production). Ráðstefna þessi er haldin á fjögurra ára fresti og er sú lang öflugasta á þessu sviði búfjárræktar. Alls eru þátttakendur um 1.400, haldnir verða tæplega 400 fyrirlestrar, auk á sjötta hundrað veggspjaldakynninga. Fyrilestrarnir taka til flest allra búfjártegunda, auk þess að fjalla um aðferðafræði af ýmsu tagi á sviði kynbóta á búfé og fiski, en raunar einnig á gæludýrum.

Hvað nautgriparæktina varðar, er greinilegt þegar litið er yfir dagskrána að hin gríðarlega bylting sem innreið sameindaerfðafræðinnar (DNA-greiningar og úrval á grunni erfðamarka) í kynbætur nautgripa ber með sér, heldur áfram af fullum krafti.

 

Einnig er áhugavert að sjá að vísindamenn á þessu sviði eru að beina sjónum sínum inn á ný mið. Dæmi um það er t.d. áhrif kynbóta á umhverfisáhrif nautgripa. Er þar einkum horft til hvernig draga megi úr metanframleiðslu þeirra, en mælingar á slíkum eiginleikum eru mjög dýrar og erfiðar í framkvæmd. Þá er farið að nýta DNA próf til að stýra vali á kvígum til ásetnings. Einnig fjalla nokkur erindi um áhrif kynbóta á klaufheilsu.

 

Af eiginleikum sem hafa lengi verið hluti af kynbótamati mjólkurkúa, eru flest erindin um endingu, júgurheilbrigði og frjósemi.

 

Á ráðstefnunni er einnig verulegur fjöldi erinda um kynbætur holdanauta. Greinilegt er að horft er til hagnýtingu kynbóta til að hafa áhrif á kjötgæði; meyrni, bragð og hversu safaríkt kjötið er. Einnig er horft til holdfyllingar, þunga við fráfærur og kálfavanhalda.

 

Framkvæmdastjóri LK hefur sótt þessar ráðstefnur árið 2006 og 2010 en hafði ekki tök á því að þessu sinni. Erindin eru þó vel aðgengileg á heimasíðu ráðstefnunnar og má af þeim ráða að gríðarleg framþróun á sér stað í nautgriparæktinni um heim allan um þessar mundir. Vonandi gefst tækifæri til að gera ítarlegri grein fyrir þeim síðar./BHB

 

Erindi um kynbætur mjólkurkúa

Erindi um kynbætur holdanauta