Beint í efni

10. fundur stjórnar LK 2018-2019

02.10.2018

Tíundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn mánudaginn 10. september kl. 21:00. Símafundur.

Mætt eru Arnar Árnason, formaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Pétur Diðriksson, Rafn Bergsson og Borghildur Kristinsdóttir. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.

Formaður býður fundarmenn velkomna og svo var gengið til dagskrár.

Þetta var gert.

  1. Afgreiðsla fundargerðar. Fundargerð 9. fundar stjórnar samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
  2. Endurskoðun búvörusamninga. Formaður og framkvæmdastjóri hafa verið boðuð á fund með samráðshóp um endurskoðun búvörusamninga þriðjudaginn 11. september nk. Helsta markmið fundarins er að fara yfir stöðu greinarinnar í dag og hvernig stjórn LK sér vinnu við endurskoðun búvörusamninga fyrir sér. Ljóst er að atkvæðagreiðsla meðal mjólkurframleiðenda um kvóta í mjólkurframleiðslu mun hafa mikið að segja um framhaldið, en hún er áætluð á fyrsta ársfjórðungi 2019. Farið verður yfir helstu atriði er snúa að framleiðslu og sölu, kynbótastarfi, verðlagningarumhverfi og framleiðslustýringu. Einnig verður lögð þung áhersla á að tollamál verði hluti af samtalinu á næsta ári. Ekki verður farið yfir kjötframleiðsluna á þessum fundi en áætlað er að samráðshópurinn kalli LK á fund að nýju til að ræða þau mál. Framkvæmdastjóri fer yfir drög að kynningu, nokkur umræða um viðmiðun bústærða, framleiðslu og mjólkurverðs erlendis. Stjórn samþykkir.
  3. Greiningarvinna vegna viðskipta með greiðslumark í mjólkurframleiðslu. LK og BÍ hafa leitað til nokkurra aðila og fengið tilboð í greiningarvinnu á mismunandi leiðum í viðskiptum með greiðslumark í mjólkurframleiðslu. Mikilvægt er að slík vinna liggi fyrir áður en atkvæðagreiðsla um kvóta í mjólkurframleiðslu verður haldin og þegar samninganefndir bænda og ríkis hefja endurskoðun samninganna. Framkvæmdastjóra falið að vinna áfram í samvinnu við BÍ.
  4. Önnur mál.

Fleira ekki gert og fundi slitið kl. 21.40

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda