10. fundur LK 2020-2021
26.04.2021
Tíundi fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2020-2021 varhaldinn mánudaginn 29. mars kl. 13:00 í gegnum fjarfundarbúnað. Mætt eru Herdís Magna Gunnarsdóttir, formaður, Rafn Bergsson, varaformaður, Bessi Freyr Vésteinsson, Sigurbjörg Ottesen og Vaka Sigurðardóttir. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Þetta var gert:
- Fundargerð 9. fundar stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2020-2021.Fundargerð samþykkt og verður birt á naut.is að fundi loknum.
- Aðalfundur LK 2021. Allt efni verður gert aðgengilegt fulltrúum á morgun, 30. mars. Farið var yfir tillögur frá aðildarfélögum en þær eru 43 talsins. Nokkuð er um keimlíkar tillögur eða tengdar og því má ætla að þeim fækki í störfum nefnda.
Farið yfir fulltrúalista, skipan í nefndir, mál til nefnda, starfsfólk fundarins o.fl. er varðar skipulag. Farið yfir lögmæti fulltrúa og staðfest. Við skipan í nefndi var bæði tekið tillit til landfræðilegrar driefingar og kynjahlutfalla og eftir fremsta megni til aldursdreifingar. Þá var einnig farið yfir stöðu ályktana frá síðasta aðalfundi.
Mun stjórn LK óska eftir því við starfsnefndirnar að þær taki fjarfundi fyrir aðalfundinn sjálfan þar sem ekkert nefndarstarf er á fundinum sjálfum. Formaður og framkvæmdastjóri LK munu sitja fundi nefndanna til að svara spurningum sem kunna að koma upp.
- Ársreikningur LK 2020. Farið yfir drög að ársreikningi en uppsetning hans er breytt frá fyrra ári þar sem bókhaldsþjónusta fór yfir til BÍ í ársbyrjun 2020. Tekjur ársins 2020 eru samtals 57.731.965 krónur, 40.940.005 krónur í félagsgjöld, 16.000.000 krónur í styrk vegna nautakjötsverkefnisins og 791.960 krónur í styrki og framlög. Samtökin skila 10.367.974 króna hagnaði fyrir fjármagnstekjur og -gjöld, en 12.654.093 króna hagnaði að þeim meðtöldum. Ársreikningur fer nú til skoðunarmanna til yfirferðar og staðfestingar.
- Fjárhagsáætlun. Gert er ráð fyrir 54.500.000 króna tekjum, 20.000.000 krónum í félagsgjöld og 31.000.000 krónum vegna nautakjötsverkefnis. Aðrir styrkir eru 1.300.000 krónur og gert ráð fyrir 2.200.000 krónum í fjármagnstekjur. Fjárhagsáætlun miðar við að rekstur LK nái yfir 6 mánuði verði samþykkt að rekstur félagsins færist undir BÍ 1. júlí nk. en nautakjötsverkefnið verði áfram á hendi LK. Gert er ráð fyrir 66.050.000 krónum í rekstrarkostnað, þar af tæplega 47 milljónir í nautakjötsverkefni en það er rekið með framlagi af búvörusamningum. Afkoma ársins er áætluð -11.500.000 krónur en með tilliti til þess að 16 m.kr. sem færðar eru sem tekjur ársins 2020 eru áætlaðar í rekstur nautakjötsverkefnisins þá væri rekstur LK í raun að koma út í 4,5 m.kr. hagnaði.
- Stjórnartillaga að félagskerfi bænda.Farið yfir drög að tillögu ásamt fylgigögnum. Stjórn samþykkir að leggja fyrir aðalfund.
- Önnur mál.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 15:00
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda