1. fundur stjórnar LK 2018-2019
02.05.2018
Fyrsti fundur stjórnar Landssambands kúabænda starfsárið 2018-2019, var haldinn föstudaginn 20. apríl 2018 kl.16:00. Símafundur.
Á fundinn mættu Arnar Árnason formaður, Pétur Diðriksson, Herdís Magna Gunnarsdóttir, Rafn Bergsson og Bessi Freyr Vésteinsson. Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri, ritaði fundargerð.
Formaður setti fund og svo var gengið til dagskrár.
Þetta var gert:
- Innlausn ríkisins á greiðslumarki í mjólkurframleiðslu.
Framkvæmdanefnd búvörusamninga fundar mánudaginn 23. apríl nk. Ljóst er að það fyrirkomulag sem nú er varðandi innlausn ríkisins á greiðslumarki virkar ekki sem skildi. Þar ber helst að nefna að þeir sem óska eftir greiðslumarki þurfa ekki að leggja til bankaábyrgð eða eru bundnir að kaupum á umbeðnu magni fyrr en greitt er fyrir útdeilt greiðslumark. Því geta framleiðendur óskað eftir ótakmörkuðu magni greiðslumarks og gera margir það í von um að fá meira útdeilt til sín þar sem allir fá sama hlutfall af umbeðnu magni ef óskað er eftir meira magni en er í boði. Þessi staða birtist í því að á síðasta innlausnardegi var óskað eftir rúmum 9 milljón lítrum þegar 600 þúsund lítrar voru í boði og nú er ljóst að óskað er eftir 33 milljón lítrum á næsta innlausnardegi. Er það mat stjórnar að þetta mikla magn endurspegli ekki raunverulega eftirspurn.
Ályktun stjórnar: Stjórn Landssambands kúabænda styður þær hugmyndir sem fram hafa komið um að setja þak á magn greiðslumarks sem hver framleiðandi getur óskað eftir á hverjum innlausnarmarkaði fyrir sig og telur rétt að hámarkið skuli bundið við 100.000 lítra. Þá getur hver framleiðandi óskað að hámarki eftir 400.000 lítrum yfir árið, þ.e. 100.000 lítrum að hámarki á hverjum innlausnardegi ársins.
Einnig lýsir stjórn LK þungum áhyggjum af þeirri staðreynd að tilfærsla greiðslumarks milli lögbýla í eigu sama aðila, sem heimiluð er í 54. grein búvörulaga, hefur verið nýtt til að eiga almenn viðskipti með greiðslumark milli lögbýla. Leggur stjórn LK áherslu á að sú heimild verði endurskoðuð með það að markmiði að almenn viðskipti með greiðslumark milli lögbýla eigi sér stað í gegnum innlausn ríkisins.
- Undirbúningsvinna fyrir atkvæðagreiðslu um kvótakerfi í mjólkurframleiðslu.
Aðalfundur fól stjórn LK að undirbúa atkvæðagreiðsluna í samstarfi við Bændasamtök Íslands. Einnig ályktaði fundurinn að halda skuli í framleiðslustýringu í formi greiðslumarks en að hámark skuli sett á verð og viðskipti skuli fara fram í gegnum opinberan aðila. Til þessarar ályktunar þarf að taka tillit til í komandi vinnu. Miklar umræður um opinberan stuðning við nautgriparæktina í heild og mikilvægi þess að kröfur um enn aukna hagræðingu innan greinarinnar sé ekki á kostnað byggðarfestu hringinn í kringum landið. Formanni og framkvæmdastjóra falið að vinna málið áfram í samstarfi við BÍ.
- Önnur mál.
- Framkvæmdastjóri tilkynnir að Nautís hefur nú endurgreitt lán er LK veitti félaginu þann 29. nóv. 2017, með vöxtum.
- Aðalfundur Nautís verður haldinn föstudaginn 27. apríl og hefst kl. 11 í fundarsal BSSL. Formaður LK situr þann fund. Stjórn sammælist um að tilnefna Sigurð Loftsson til áframhaldandi setu sem formaður Nautís og Arnar Árnason sem varaformann.
- Skipulag funda rætt og stjórn sammála um góða reynslu af símafundum sem einnig eru hagstæðari fyrir samtökin. Framkvæmdastjóra falið að gera uppkast að fundaráætlun fyrir árið. Framkvæmdastjóra einnig falið að kanna ódýrari valkosti í flugsamgöngum.
- Miklar umræður um viðbrögð vegna niðurstöðu EFTA-dómsins og þau neikvæðu áhrif sem hún gæti haft á nautakjötsframleiðslu í landinu komi engar mótvægisaðgerðir til. Auk þess eru yfirvofandi verðlækkanir frá sláturleyfishöfum á nautgripi sem m.a. má rekja til launahækkanna 1. maí og aukins innflutnings vegna gildistöku tollasamnings við ESB á sama tíma.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 18:00.
Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda