Beint í efni

Vitundarvakning meðal bænda um áhættuþætti

12.05.2022

Fjölmargir þættir hafa áhrif á heilsu fólks og full þörf er á að auka fræðslu og forvarnir um andlega og líkamlega heilsu þeirra sem starfa í landbúnaði. Langvarandi streita, heimsfaraldur og versnandi afkoma hafa reynt mjög á bændur undanfarin ár en það getur leitt til kulnunar og andlegra veikinda. 

Umræður á Búgreinaþingi og ályktun um málefnið á Búnaðarþingi endurspegluðu þessa áhyggjur innan stéttarinnar. Í beinu framhaldi sóttu Bændasamtökun um styrk til félagsmálaráðuneytisins til þess að tryggja bændum aðgang að fræðslu og leiðbeiningum er varða áhættuþætti í starfi sem geta ýtt undir geðræn vandamál. Rannsóknir hafa sýnt fram á að bændur um heim allan eru útsettari fyrir atvinnutengdum sjúkdómum bæði líkamlegum og andlegum en aðrar starfsstéttir.

Það er því mikið fagnaðarefni að Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hafi veitt samtökunum fjármagn til þess að bæta forvarnir og viðbrögð við andlegum veikindum bænda. Stjórn Bændasamtaka Íslands telur það mjög brýnt að vitundavakning um þessi mál eigi sér stað meðal bænda og að þeir sem og aðstandendur hafi og þekki greiðar leiðir til sjálfsbjargar.