30. apríl 2020

Sveitaheimsóknir á tímum veirufaraldurs

Sveitaheimsóknir á tímum veirufaraldurs

Um árabil hafa bændur boðið upp á sveitaheimsóknir á vorin. Þúsundir leikskólabarna og grunnskólanemenda hafa farið í vorferðir með foreldrum og kennurum og heimsótt bæi undir merkjum Opins landbúnaðar. Þá hafa ferðaskrifstofur skipulagt heimsóknir á bú fyrir erlenda ferðamenn og Íslendingar hafa verið duglegir að nýta sér ýmsa þjónustu og afþreyingu sem er í boði hjá bændum.

Vegna COVID-19 faraldursins eru breyttar forsendur fyrir heimsóknum í sveitina. Þann 13. mars sl. gáfu Bændasamtök Íslands út tilmæli til bænda þar sem þau mæltu með því að heimsóknir á bú og samgangur á milli fólks væri í algjöru lágmarki. Þessar ráðstafanir voru gerðar til að sporna við veirusmiti á milli manna og tryggja hnökralausa búvöruframleiðslu.

Nú þegar faraldurinn er í rénun hafa borist fyrirspurnir til BÍ hvort sveitaheimsóknir barna verði á dagskrá í vor. Samtökin mæla með því að að bændur, sem stunda búvöruframleiðslu, viðhafi áfram smitgát og takmarki gestakomur á bú sín eins og kostur er.

Aðstæður eru misjafnar og á einhverjum búum er hægt að taka á móti gestum, t.d. þar sem búvöruframleiðsla er í lágmarki eða skipulag með þeim hætti að heimilisfólk treystir sér til að taka á móti hópum. Í þeim tilvikum eru bændur hvattir til að fara að þeim reglum sem gilda um heimsóknir hópa eftir breytingar á samkomubanni 4. maí. Engar takmarkanir eru á samveru skólabarna en á mannamótum þarf að tryggja að nánd á milli fullorðinna (eldri en 16 ára) sé yfir tveir metrar. Fólk er áfram hvatt til þess að stunda handþvott, nota spritthreinsi eftir atvikum og viðhafa almennar smitvarnir.

Ítarefni frá Samhæfingarstöð almannavarna: Tilslakanir á takmörkunum 4. maí - gátlisti fyrir rekstraraðila sem vinna með börnum og unglingum