
Stórt hagsmunamál fyrir bændur
10.01.2023
Frá 1. janúar síðastliðnum tók í gildi bann við veiðum á grágæsum á Íslandi í kjölfarið af því að íslenska grágæsin var færð í verndarflokk síðastliðið haust í gegnum AEWA-samninginn sem Ísland á aðild að og er ætlað að vernda afrísk-evrasíska vatnafugla sem eru farfuglar. Engin breyting verður þó gerð til 15. mars á þessu ári.
Hefur aðgerðin mikil áhrif fyrir bændur sem geta nú með illu móti varið ræktunarlönd sín og uppskeru, auk þess sem bannið gerir allar áætlanir stjórnvalda og bænda um aukna kornrækt og aðra akuryrkju að engu, sem gæti síðan leitt til erfiðleika um að viðhalda núverandi framleiðslu. Jafnframt eru uppi umtalsverðar áhyggjur af fuglaflensu sem nú þegar haft hefur gríðarleg áhrif á alifugla- og eggjabændur í Evrópu. Veiðitímabilið hefur fram að þessu verið 20. ágúst til 15. mars og það er litið þannig á að fyrirvarinn sem Ísland og Bretland gerðu við friðunina feli í sér að engin breyting verði gerð til 15. mars á þessu ári. Áætlun um sjálfbærar veiðar verði síðan tilbúin fyrir haustið og þar sé ætlunin að taka eins og hægt er tillit til hagsmuna bænda.
Bændasamtök Íslands hafa kallað eftir aðkomu stjórnvalda með mótvægisaðgerðum enda fyrirvari þessa banns nánast enginn og engir fyrirvarar verið gefnir um að slíkt bann væri í skoðun. Varðandi aðdragandann að banninu, þá er ekki að finna í nýlegum skýrslum á vegum AEWA tillögur til friðunar heldur er þar fyrst og fremst verið að lýsa vandkvæðum við talningu fugla vegna breytts ferðamynsturs þeirra. Þá er raunar í nýjustu skýrslunum tekið fram að talning sé óáreiðanleg og líklega sé um vantalningu að ræða.
Á fundi AEWA síðastliðið haust, lögðu fulltrúar Stóra-Bretlands til að grágæsin yrði stjörnumerkt og fulltrúar Íslands studdu það ásamt Evrópusambandinu. Stjörnumerkingin þýðir að þrátt fyrir veiðibann eru veiðar heimilar svo framarlega sem þær samræmast alþjóðlegri verndar- og stjórnunaráætlun og eru sjálfbærar.
Bændasamtökin hafa átt fund með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfisráðherra, þar sem m.a. var rætt um bann við veiðum á grágæsum. Upplýsti ráðherrann á þeim fundi að nú færi í hönd vinna við gerð stjórnunar- og verndaráætlunar í samstarfi við Breta og að ráðuneytið yrði í góðu samstarfi við hagsmunaaðila.
/Mynd: Óskar Andri