22. maí 2020

Ríkisvaldið hafnar því að fella niður útboð á tollkvótum

Bændasamtök Íslands sendu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra erindi í lok apríl þar sem farið var fram á tímabundið frávik frá úthlutun tollkvóta sem kveðið er á í samningi við ESB um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Samtökin lögðu til að fallið yrði frá útboði á tollkvótum í maí fyrir tímabillið júlí til desember 2020. Í vikunni barst svarbréf frá ráðherra þar sem erindinu er hafnað á þeim grundvelli að ekki sé heimilt að falla frá úthlutun tollkvóta vegna ákvæða í tollasamningi milli Íslands og Evrópusambandsins. Ríkisstjórnin hefur hins vegar ákveðið að ráðast í úttekt á samningnum og í framhaldi af því verður tekin ákvörðun um hvort óskað verði eftir viðræðum við ESB um endurskoðun tollasamningsins.

Kórónuveirufaraldurinn hefur áhrif á eftirspurn eftir landbúnaðarvörum

Ástæður þess að Bændasamtökin óskuðu eftir því að fallið yrði frá úthlutun tollkvóta tímabundið voru fyrst og fremst áhrif COVID-19 faraldursins. Mikil fækkun ferðamanna hefur áhrif á neyslu matvæla hér á landi en stækkun tollkvótanna með samningi árið 2015 var ekki síst réttlætt með vaxandi fjölda ferðamanna sem innlend framleiðsla gæti ekki annað. Þær forsendur eru að engu orðnar núna að mati samtakanna. BÍ bentu ráðherra á að úthlutun tollkvóta með óbreyttum hætti, þegar eftirspurn er verulega minni en áður, myndi grafa undan innlendri framleiðslu og mögulega veikja stoðir hennar verulega. Íslenskt atvinnulíf þyrfti ekki á því að halda í þeirri djúpu efnahagslægð sem landið er nú í.

Landslagið er gjörbreytt

Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtakanna segir að forsendur fyrir tollasamningnum séu brostnar og þess vegna hafi samtökin farið fram á aðgerðir ríkisvaldsins. Kvótarnir sem um ræðir og verða boðnir út eru 1426 tonn af kjöti og 245 tonn af osti. Þeir gilda fyrir seinni hluta ársins 2020.

„Að okkar mati er landslagið gjörbreytt eftir að kórónuveirufaraldurinn reið yfir. Ferðamenn munu ekki halda uppi aukinni neyslu á landbúnaðarvörum og nú er mikilvægt að styðja innlenda matvælaframleiðslu. Það er einfaldlega óþarfi að flytja inn erlendar búvörur við þessar aðstæður þegar innlendir framleiðendur geta annað markaðnum. Við höfum líka bent á að verð á aðföngum hefur hækkað umtalsvert, m.a. vegna gengisbreytinga. Það þarf á tímum sem þessum að standa vörð um íslenska framleiðslu og því telja Bændasamtökin óhjákvæmilegt að bregðast skjótt við. Við erum óánægð með að ríkisvaldið leggi ekki í þá vegferð að hætta við tollaútboð en fögnum þeirri viðleitni sem kemur fram í svarbréfi ráðherra að gera eigi úttekt á þeim hagsmunum sem felast í tollasamningnum. Í okkar huga er hann innlendri framleiðslu í óhag,“ segir Gunnar og bætir við að vonandi verði samningurinn um viðskipti með landbúnaðarvörur tekinn til endurskoðunar sem allra fyrst.

Stjórnvöld hyggjast framkvæma úttekt á tollasamningi

Í svarbréfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra kom fram að leitað var umsagnar utanríkisráðuneytisins um málið og niðurstöður athugunar ráðuneytanna beggja ræddar í ríkisstjórn. Niðurstaðan var sem áður segir að hafna erindi bænda og vísað í samnings Íslands og ESB um viðskipti með landbúnaðarafurðir. Umræddur samningur hafi ekki að geyma heimildir fyrir annan hvorn samningsaðilann til að falla frá úthlutun tollkvóta. Ef slíkt yrði gert einhliða teldist það brot á samningnum.

Í niðurlagi svarbréfs ráðherra kemur fram að í lok febrúar sl. hafi ríkisstjórn Íslands samþykkt að framkvæmda úttekt á hagsmunum Íslands af tollasamningnum með hliðsjón af þeim breytingum sem orðið hafa frá gildistöku hans. Í þeirri úttekt verði haft samstarf við hagsmunaaðila og í framhaldi hennar tekin ákvörðun um hvort óskað verði eftir viðræðum við Evrópusambandið um endurskoðun gildandi samnings um viðskipti með landbúnaðarafurðir.

Bréf BÍ til sjávarúvegs- og landbúnaðarráðherra - 30. apríl

Svarbréf frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra - 19. maí