Beint í efni

Matvæli og nauðsynleg aðföng vegna matvælaframleiðslu hluti af neyðarbirgðahaldi

28.09.2022

Starfshópur sem falið var að gera skýrslu um nauðsynlegar birgðir til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum hefur skilað forsætisráðherra skýrslu sinni. Skýrslan, sem unnin er með vísan til stefnu stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, hefur verið kynnt í ríkisstjórn og rædd í þjóðaröryggisráði.

Í skýrslunni er bent á að neyðarbirgðahald er mikilvæg aðgerð til þess að styrkja áfallaþol samfélagsins. Samkvæmt lögum um almannavarnir hafa einstök ráðuneyti og undirstofnanir þeirra og sveitarfélög ríkar skyldur til þess að kanna áfallaþol þess hluta íslensks samfélags sem fellur undir starfssvið þeirra og skipuleggja fyrirhuguð viðbrögð og aðgerðir, m.a. hagvarnir, birgðir og neyðarflutninga til og frá landi. Þá ber opinberum aðilum og einkaaðilum skylda til að veita nauðsynlegar upplýsingar við gerð áætlana ríkis eða sveitarfélaga.

Í skýrslu starfshópsins er lagt til grundvallar að eftirtaldar birgðir þurfi að vera tiltækar til þess að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættustundu svo að unnt sé að vernda líf og heilsu almennings, tryggja órofa virkni mikilvægra innviða samfélagsins og þjónustu sem er nauðsynleg svo að unnt sé að sinna brýnustu þörfum íbúa og samfélags við slíkar aðstæður:

  • Matvæli og nauðsynleg aðföng vegna matvælaframleiðslu.
  • Jarðefnaeldsneyti.
  • Lyf, lækningatæki og hlífðarbúnaður.
  • Viðhaldshlutir og þjónusta vegna mikilvægra innviða samfélagsins, þ.m.t. rafmagns og fjarskipta, veitna, samgangna, neyðar- og viðbragðsþjónustu og mannvirkja og veitna.
  • Hreinlætisvörur og sæfivörur.

Starfshópurinn bendir á að formlegt samráð ríkis, sveitarfélaga og einkaaðila sem hafa hlutverki að gegna varðandi neyðarbirgðahald á tilgreindum sviðum sé forsenda þess að unnt sé að vinna skipulega að ásættanlegri birgðastöðu lífsnauðsynja til afnota á hættustundu.

Í skýrslunni er lagt til að hlutaðeigandi ráðuneyti, hvert á sínu málefnasviði, leiði samráð ríkisaðila, atvinnulífs og þriðja geirans. Á það m.a. við um hvaða vörur og tæki teljist nauðsynlegar innan hvers sviðs, magn nauðsynlegra birgða og til hve langs tíma þær eigi að duga, fyrirkomulag birgðahalds og tilhögun upplýsingagjafar um birgðastöðu í rauntíma á þeim vörum og tækjum sem teljast til neyðarbirgða; og mat á þörf á lagabreytingum.

Samráðsferli og greiningarvinna er nú hafin eða að hefjast hjá hlutaðeigandi ráðuneytum í samráði við hagaðila til undirbúnings nánari útfærslu á tillögunum.

Gert er ráð fyrir að þessari vinnu verði lokið á vettvangi ráðuneytanna á fyrsta ársfjórðungi ársins 2023. Þá liggi fyrir yfirlit um nauðsynlegar birgðir á hverju sviði og mat á birgðastöðu. Jafnframt liggi fyrir niðurstöður um tilhögun upplýsingagjafar um birgðastöðu í rauntíma til eftirlits- og umsjónaraðila innan hvers geira, á þeim vörum og tækjum sem teljast til neyðarbirgða.

Skýrslu starfshóps um neyðarbirgðir má lesa hér.